Notaði Everestbúnað til að losa hreiður

„Þegar starafló bítur eiginkonuna og meindýraeyðirinn eitrar en kemst ekki að hreiðrinu kemur súpermann.“

Á þessum orðum hefur Jón Axel söguna af því þegar Bjarni Ármannsson hreinsaði starahreiður á þriðju hæð í sigbelti sem notað er til fjallaklifurs.

„Það eru hjón sem búa vestur í bæ og þau lentu í því að starafló var að bíta þau og það var erfitt að komast að þessu. Það fer engum orðum af þessu, en maðurinn, sem er náttúrlega Everestfari, hann nær í gírið niður í geymslu og tengir sig við skorsteininn og sígur niður sitt eigið hús í beltinu til þess að losa starahreiðrið,“ útskýrir Jón Axel.

Þeir Ásgeir Páll og Jón Axel heyrðu í Bjarna Ármannssyni í morgunþættinum Ísland vaknar og fengu að heyra hvernig honum datt þetta í hug.

„Já, nú fer nú klettaklifurtímabilið að byrja og ágætt að taka fram dótið og æfa sig. En þetta var nú bara þannig að konan var, eins og þú sagðir, bitin og fékk útbrot og hún var ekki ánægð með þetta,“ segir Bjarni.

Meindýraeyðirinn komst ekki að hreiðrinu, sem var í þakrennu á þriðju hæð, og segir Bjarni ekkert annað hafa verið að gera en að síga niður, hreinsa rennuna og loka þessu.

Viðtalið við Bjarna má hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan:  

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist