„Nei hættu nú alveg“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður voru bæði …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður voru bæði í beinni þegar skjálftinn reið yfir.

Það er misjafnt hvernig fólk bregst við þegar eitthvað óvænt gerist á borð við jarðskjálfta eins og þann sem reið yfir í dag.  Þannig mátti sjá Helga Hrafn Gunnarsson, þingmann Pírata, taka til fótann í þinginu á meðan Steingrímur J. Sigfússon kippti sér ekki mikið upp við skjálftann.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var í miðju viðtali við blaðamann Washington Post þegar skjálftinn reið yfir. Henni brá greinilega en náði að halda andlitinu og brosti svo og sagði: „Svona er Ísland.“ 

„En dæmigert þegar maður situr hérna í viðtali að vanda sig ofboðslega við að tala útlensku og þá fer allt að hristast og skjálfa. Nei hættu nú alveg! Þetta ár hættir bara ekki að gefa,“ sagði hún í samtali við Sigga Gunnars og Loga Bergmann í Síðdegisþættinum á K100 í dag. 

„Ég tek venjulega ekki eftir minniháttar jarðskjálftum en þennan fann ég,“ sagði Katrín og rifjaði upp að í Suðurlandsskjálftanum árið 2000 hefði hún verið að þvo sér um hárið og rokið fram á gang með sjampó í hárinu.

Helgi Hrafn ræddi líka við Sigga og Loga. Hann sagði það hafa verið mikla lífsreynslu að standa í pontu og sjá allt nötra. „Þetta er eldgamalt hús og allt úr timbri. Ég held meira að segja að tölvurnar séu úr timbri," sagði Helgi í Síðdegisþættinum og sagði að allt hefði leikið á reiðiskjálfi.

Hægt er að hlusta á viðtölin við Katrínu og Helga hér að neðan.

Katrín Jakobsdóttir var í beinni útsendingu þegar skjálftinn reið yfir

Í pontu í miðjum jarðskjálfta - Helgi Hrafn Gunnarsson

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist