„Hann beit og barði alla en ekki mig“

Ljósmynd: Skjáskot/Youtube

Logi Bergmann og Siggi Gunnars rifjuðu upp gamla frétt frá stöð 2 í Síðdegisþættinum í gær. Fréttin sagði frá Dröfn Ösp Snorradóttur sem myndaði einstakt vinasamband við svaninn Kára.

Svanurinn Kári fraus fastur í Reykjavíkurtjörn og þurfti að klippa hann lausan sem gerði það að verkum að hann gat ekki haft sig til flugs. Varð hann því mikill einstæðingur á tjörninni og myndaði þetta einstaka vinasamband við Dröfn sem var þá þrettán ára gömul.

Síðan hafa liðið mörg ár og ákváðu þeir Logi og Siggi að heyra í henni Dröfn og sjá hvort hún myndi ekki vel eftir þessu.

„Klárlega ég fæ aldrei að gleyma þessu,“ segir Dröfn og hlær.

„Þetta byrjar og endar með því að ég er þarna í Tjarnaskóla og hann var alltaf þarna með bölvað vesen. Var alltaf að stoppa umferð og stóð á gangbrautinni og hrinti börnum út í tjörn og hann var alveg bölvaður, hann var andstyggilegur. Hann beit og barði alla en ekki mig,“ segir hún.

Dröfn og vinir hennar fóru að bera Kára af gangbrautinni og niður að tjörn aftur og segir hún að þá hafi eitthvað gerst.

„Hann bara endurstilltist á mig og ég varð vinkona hans það var bara þannig í meira en ár. Ég  gat farið og náð í hann hvenær sem er. Ég var að vinna á reiðskóla upp í sveit og var kölluð í bæinn til þess að sækja hann fyrir einhverja kvikmynd, einhverja barna mynd. Ég var svanahvíslarinn. Og við sátum oft bara saman við tjarnarbakkann,“ segir Dröfn og hlær.

Kári eignaði sér Dröfn og ef einhver kom nálægt henni þegar þau voru saman barði hann frá sér.

Viðtalið við Dröfn má hlusta á hér fyrir neðan:

Myndband af gömlu fréttinni má sjá hér fyrir neðan:mbl.is