Miley Cyrus í beinni að heiman

AFP

Stórsöngkonan Miley Cyrus tilkynnti á dögunum að hún ætlaði að halda tónleika í garðinum heima hjá sér.

Tónleikarnir eru hluti af svokölluðum Backyard Sessions sem hún byrjaði með á youtuberás sinni árið 2012 en lítið hefur borið á þeim undanfarin ár.

Þar syngur hún ábreiður og eigin lög órafmagnað. Verður þeim streymt í gegnum sjónvarpsstöðina MTV þennan fallega föstudag í dag 16. október og hefur fröken Miley deilt nokkrum myndböndum á Instagrammið sitt sem gefa til kynna hvaða lög verða tekin.

Meðal annars mátti heyra stuttan bút úr laginu Gimme More með engri annarri en Britney Spears flutt á allt aðra vegu af Miley.

Þetta er ótrúlega hressandi og skemmtilegt í miðju samkomubanni og frábært að leita leiða til þess að fá smjörþef af tónleikaupplifun þó svo að áhorfendur séu heima í stofu.

Undirrituð er forfallinn Miley Cyrus-aðdáandi og tekur þessu fagnandi. Tónlistin verður ekki takmörkuð og getur alltaf veitt gleði!

Frétt frá Vulture.

 

mbl.is