Áfengi og reykingar auka líkur á krabbameini

Ljósmynd: Unsplash/National Cancer Institute

Í dag er Bleiki dagurinn og á honum eru landsmenn hvattir til þess að bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo að allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning og samstöðu.

Í morgunþættinum Ísland vaknar ræddu þau Ásgeir Páll, Kristín Sif og Jón Axel við hana Laufeyju Tryggvadóttur framkvæmdastjóra krabbameinsskrár og klínískan prófessor við læknafræðideild Háskóla Íslands um það hversu mörgum væri hægt að forða frá krabbameini með því að draga úr áfengisneyslu, reykingum, offitu og hreyfingarleysi.

„Það er hægt að áætla þetta út frá því sem við vitum í dag og þetta hefur verið reiknað út víða. Við erum í samstarfi með norrænum krabbameinsskrám og það er hægt að forða ótrúlega mörgum frá krabbameini ef allir myndu hætta að reykja, smakka áfengi, verða of feitir og hreyfa sig. En auðvitað gerist það ekki í einum vettvangi. Það væri vel yfir hálf milljón manns á Norðurlöndunum næstu 30 árin ef bestu aðstæður væru. En það sýnir líka að það væri hægt að spara ansi mörg krabbamein bara ef menn myndi breyta svolítið um hátt,“ segir Laufey.

Hún segir algengasta krabbameinið vera brjóstakrabbamein í konum og blöðruhálskrabbamein í körlum, eftir þeim tveimur kemur krabbamein í ristli.

„Það er hægt að forða mjög mörgum brjóstakrabbameinum með því að minnka áfengisneyslu sem að fáir raunverulega vita af því að menn tengja yfirleitt ekki áfengisneyslu við brjóstakrabbamein. Það er áætlað að áfengi valdi um 5% brjóstakrabbameini á Norðurlöndunum,“ segir hún.

Viðtalið við Laufeyju er hægt að hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

#taktubetrimyndir