Skiptir máli hvert við veljum að líta

Ljósmynd: Unsplash/Jonatan Pie

Í ófyrirsjáanlegri tilveru sem er síbreytileg er mikilvægt að staldra við og sjá nýjar hliðar. Það að fræðast, þróast og þroskast fær okkur oft til þess að kanna ný sjónarhorn og opna hugann enn frekar.

Á þessu ári höfum við svo sannarlega upplifað mikið og skiljum nú jafnvel betur en nokkru sinni fyrr hvað lífið er breytilegt og hverju við getum og getum ekki stjórnað.

En við höfum alltaf okkur sjálf sama hvert við ferðumst, hvað blasir við og hvar við erum stödd í tilverunni og því er mikilvægt að koma vel fram við þennan ófjarlægjanlega ferðafélaga sem við erum gagnvart okkur sjálfum.

Í þessum skrifuðu orðum er ég stödd í sveitinni með kærustunni minni og skólabókunum. Þó að allt sé gjörbreytt og þó að árið hafi farið á allt annan veg en ég hefði ætlað þá get ég ekki hætt að hugsa um það hvað ég er ómetanlega heppin og þakklátari en nokkru sinni fyrr.

Ég á í betra sambandi við sjálfa mig en ég hef lengi verið í og tel að mér hafi tekist ágætlega að tileinka mér listina að staldra við. Nú blasir við yfirvofandi skammdegi og dimmur veturinn tekur okkur opnum örmum.

Ég fékk skemmtilega hugljómun í gærkvöldi þegar myrkrið var örlítið farið að hræða mig. Ég hef verið myrkfælin frá unga aldri þó að ég reyni að beita rökhugsun þegar óþægilegar tilfinningar hellast yfir mig.

Myrkrið blasti við mér þegar ég horfði fram á við, en um leið og ég skipti um sjónarhorn og leit upp sá ég dásamlega fallegan himininn, risastóran, þakinn stjörnum og umvafinn birtu.

Þá áttaði ég mig á því hvað það skiptir miklu máli hvert þú velur að líta. Stjörnurnar skína skærar þegar myrkrið tekur yfir og þegar það er dimmt yfir okkur þá getum við allavega minnt okkur á það!

mbl.is