„Grænmetisgæinn“ slær í gegn

Ljósmynd: Skjáskot/Twitter

Gleðin leynist á ólíklegustu stöðum og það er mikilvægt að hafa augun opin fyrir henni. Við gætum rekist á eitthvað glænýtt og öðruvísi sem kemur okkur skemmtilega á óvart.

Hinn 71 árs gamli Gerald Stratford, sem við skulum kalla grænmetis-Gerald, fann mikla hamingju í því að rækta sitt eigið grænmeti. Stratford er 71 árs gamall og búsettur í smábæ á Englandi.

Hann hefur slegið í gegn á samskiptaforritinu Twitter og deilir með fylgjendum sínum hvaða grænmeti hann hefur ræktað hverju sinni og matreiðir það á skemmtilegan hátt. Sellerí með hnetusmjöri féll til dæmis í kramið hjá karlinum nú í haust.

Grænmetið hans er gjarnan risavaxið og kallar hann það stundum „big boy“ eða stór strákur og spyr fylgjendur sína hvað hann eigi til dæmis að gera við þetta stóra-stráks-sellerí.

Það leikur enginn vafi á því að grænmetið veitir honum mikla gleði enda getur grænmeti svo sannarlega verið gleðigjafi.

Stratford starfaði sem sjómaður lengi en fyrir um áratug settist hann í helgan stein og hefur síðan einbeitt sér að garðvinnu, sem hann segir miklu skemmtilegri og þykir frábært að geta borðað eigin afurðir.

Hann segist elska áskoranir og reynir alltaf að prófa eitthvað nýtt í garðinum, þar sem hann hefur ræktað alls kyns tegundir. Má þar til dæmis nefna epli, tómata, gúrkur, kál og rótargrænmeti.

Myndirnar hans eru skemmtilegar og ofur krúttlegar þar sem gleðin smitar út frá sér til fylgjenda. Allt er vænt sem vel er grænt!

Frétt frá Tankgoodnews.

 

mbl.is