Yfir hálfan heiminn á átta dögum í heimsfaraldri

Sig­urður Eg­ill Sig­urðsson flug­stjóri og Birna Borg Gunn­ars­dótt­ir flugmaður.
Sig­urður Eg­ill Sig­urðsson flug­stjóri og Birna Borg Gunn­ars­dótt­ir flugmaður. Ljósmynd: mbl.is

Flugfélagið Ernir seldi á dögunum Jet Stream litla 19 sæta flugvél til Nýja Sjálands. Birna Borg Gunnarsdóttir, flugmaður hjá Flugfélaginu Ernir fékk það verkefni að fljúga vélinni á áfangastað og tók flugferðin átta daga.

Logi Bergmann og Siggi Gunnars heyrðu í Birnu í Síðdegisþættinum og fengu að heyra hvernig flugferðin gekk.

„Við vorum átta daga á leiðinni út og þurftum að stoppa á sextán stöðum á leiðinni,“ sagði Birna en þau voru tvö sem flugu vélinni saman.

Stoppuðu þau meðal annars á Englandi, Grikklandi, Ítalíu, Indlandi ásamt fleiri stöðum. Birna segir ferðalagið hafa verið skrítið vegna heimsfaraldursins en að þau hafi fengið undanþágu á nokkrum stöðum til þess að gista.

Erfiðasti hluti ferðarinnar hafi verið á Indlandi en þar hafi þau lent í „lock down“ á hótelinu og fengu ekki að fara út af herberginu.

Þegar komið var til Nýja Sjálands hafi ekki verið flug frá landinu fyrr en eftir þrjá daga og voru þau í sóttkví á meðan. Fengu að fara út í göngutúra en máttu ekki fara neins staðar inn.

„Þetta var verkefni og mikil vinna, en gaman. Ég væri alveg til í að prófa þetta aftur og þá ekki í heimsfaraldri,“ sagði Birna en ferðin heim aftur tók þau þrjá daga.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Birnu og ferðasöguna í heild sinni hér fyrir neðan:

 

mbl.is