Vill að bækurnar hafi boðskap

Ljósmynd: Úr einkasafni

Katrín Ósk Jóhannsdóttir fer fyrir nýrri vefverslun sem heitir Óskarbrunnur. Þar er hægt að kaupa barnabækur eftir hana sjálfa og fleira efni tengt börnum.

Nafn vefsins vísar til millinafns Katrínar, Ósk, og segir hún það vera hinn endalausa brunn af hugmyndum sínum.

Þeir Jón Axel og Ásgeir Páll heyrðu í Katrínu í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun og ræddu við hana um hvað það sé sem skipti máli þegar skrifa á barnabók og hvað sé fram undan hjá henni.

„Ástæðan fyrir því að ég fór á fullt í þetta einmitt núna er að ég, eins og svo ótrúlega margir, missti vinnuna bara út af þessu ástandi núna í lok ágúst. Ég keypti allan lagerinn af bókunum mínum og réttindin að þeim frá útgáfunni sem ég byrjaði hjá í mars á þessu ári og svo hafa þær svolítið legið hérna til skrauts og ég ákvað loksins að gera eitthvað í því,“ segir Katrín.

Katrín hefur skrifað barnabækur og bókin Mömmugull er meðal hennar verka. Nýlega hóf hún að þróa vörur út frá bókunum sínum og vill Katrín að bæði bækurnar og vörurnar skilji eitthvað eftir sig. Hún segir mikla samkeppni á markaðnum hérlendis og stefnir hún á að teygja sig út fyrir landsteinana. Bókin Mömmugull mun því koma út í Ameríku á næsta ári og kallast hún þar Mommy's Treasure.

„Maður hugsar í lausnum, ef það er ekki nóg að gera hér þá fer maður eitthvað annað,“ segir hún.

Katrín segir það skipta sig máli að bækurnar sem hún skrifar hafi einhvern boðskap og kenni börnum eitthvað.

„Mömmugull er einlægur boðskapur sem kennir börnum hver hinn raunverulegi fjársjóður lífsins er. Verðmætin okkar koma ekki út frá því hversu mikið, stórt og dýrt við eigum. Þetta er rosalega hraður heimur og hann er svo gráðugur og fullur af samkeppni og þetta er nokkuð sem ég vildi kenna mínum börnum sem allra fyrst,“ segir hún.

Katrín segist alltaf vilja láta gott af sér leiða og ákvað hún að með sölu á hverri Mömmugullsbók til 15. nóvember rynnu 500 krónur til Umhyggju, styrktarfélags foreldra langveikra barna.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Katrínu hér fyrir neðan:  

 

mbl.is