Heimilislaus hundur gætti týnds barns

Hundar eru magnaðar verur sem hafa reynst mannfólkinu ansi vel í gegnum tíðina, enda gjarnan kallaðir bestu vinir mannsins.

Ég rakst á ótrúlega hundasögu frá St. Louis í Bandaríkjunum, þar sem kornungur lítill strákur hafði labbað einsamall út af heimili sínu snemma morguns, klæddur í náttföt.

Foreldrar hans voru í öngum sínum þegar þau áttuðu sig á því að drengurinn væri ekki heima og vissu ekki hvert hann hefði farið. Nágrannakona þeirra fann hann á röltinu og náði að lokum í föðurinn svo að blessunarlega fór þetta ekki verr.

Drengurinn var þó ekki einsamall heldur hafði hann rekist á heimilislausan hund sem stóð ljúfur við hlið stráksins þangað til hann fannst.

Strákurinn kippti sér ekkert upp við það að vera úti án foreldra sinna en virtist mjög glaður með félagsskap hundsins, sem hefur greinilega passað vel upp á hann.

Út frá þessu atviki stendur nú til að lögregludeild borgarinnar ættleiði hundinn. Allt er gott sem endar vel!

Frétt frá Tankgoodnews.

 

mbl.is