Fagna fjölbreyttum fyrirsætum Rihönnu

Ljósmynd: Savage X Fenty

Rihanna hefur fengið verðskuldaða athygli undanfarin ár fyrir tískumerkið sitt Fenty og sett upp magnaðar tískusýningar þar sem fjölbreyttar fyrirsætur eru í forgrunni.

Hún setti upp aðra sýningu sína fyrir línuna Savage X Fenty sem var nú á dögunum sýnd á Amazon Prime Video og vakti fjölbreytileikinn mikla athygli sem og lukku.

Fyrirsætur af öllum stærðum og gerðum einkenndu tískusýninguna og hafa áhorfendur deilt ánægju sinni á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega á forritinu Twitter.

Föt úr karlmannslínu hennar eru í stærðum upp í XXXL og þótti mörgum kærkomið að sjá nýjar fyrirmyndir ryðja sér til rúms, þar sem enginn einn líkami er meira einkennandi en annar.

Margir karlmenn fóru á Twitter og sögðust þakklátir og ánægðir með þessa nýju nálgun á tísku og fyrirsætur.

Fjölbreyttar fyrirmyndir eru ótrúlega mikilvægar og ýta undir betra samband við eigin líkama, ólíkt þeim óheilbrigðu fegurðarstöðlum sem stundum hafa einkennt tískuheiminn. Vel gert Rihanna, listrænn snillingur með meiru!

Frétt frá Tanksgoodnews.mbl.is