Einmanaleiki einskorðast ekki við samskiptaleysi

Hamingjuhorn Önnu Lóu er alla mánudagsmorgna á K100.
Hamingjuhorn Önnu Lóu er alla mánudagsmorgna á K100. Ljósmynd: Úr einkasafni

Anna Lóa ræddi um einmanaleika á þessum skrítnu tímum við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel í morgunþættinum Ísland vaknar. Þar sagði hún einmanaleika ekki endilega einskorðast við samskiptaleysi og mælir hún með því að finna sér nýjar leiðir til þess að tengja okkur. Þá segir hún einnig að fólk upplifi ekki endilega einmanaleika ef það velji að vera eitt en þegar honum er troðið upp á fólk, líkt og er í gangi núna, geti fólk orðið mjög einmana. Meira um þetta á K100.is.

„Einmanaleikinn er ekki endilega á pari við það hvað við umgöngumst marga. Það finnst mörgum það skrítið, en einmanaleiki fylgir oft bara þessum tímabilum þar sem okkur er ógnað og við erum í óvissu og vitum ekki hvert við stefnum. Þetta tengist oft óöryggi. Það eru margir sem upplifa einmanaleika núna þessa mánuðina og þá skiptir kannski ekki máli hvað þeir eru í miklum tengslum við aðra,“ sagði Anna Lóa.

Hún segir að fólk upplifi kannski ekki einmanaleika ef það velji að vera eitt en þegar honum er troðið upp á fólk, líkt og er í gangi í þjóðfélaginu í dag, geti fólk orðið mjög einmana.

„Þannig að ég held að við stöndum svolítið fyrir því að vera dugleg að hugsa þetta svolítið öðruvísi. Við þurfum að vera dugleg að tengjast öðrum á annan hátt en við erum vön,“ sagði hún.

Hún segir mikilvægt að finna leiðir til þess að tengja okkur saman á nýjan hátt.

„Við erum í stríði við ósýnilega veiru og hún hefur þannig áhrif á okkur að við getum ekki hagað lífi okkar eins og við myndum kannski kjósa. Svo við verðum að fara að búa til leiðir til að tengja okkur saman. Finna okkur nýjan tilgang, þar sem tilgangur minn fyrir kannski tveimur mánuðum hann á ekki við í dag. Þetta tímabil er ekki búið í næstu viku eða þar næstu. Við þurfum svolítið að átta okkur á því, án þess að ég sé að hljóma neikvæð, að þetta er svolítið komið til að vera næstu mánuði og um leið og við gerum ráð fyrir því þá kannski erum við meira skapandi í hugsun og gerum meiri ráðstafanir,“ sagði Anna.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Önnu Lóu í spilaranum hér fyrir neðan:

Hægt er að lesa pistil Önnu Lóu um einmannaleika og tenglsamyndun hér fyrir neðan:

Góðan dag kæru vinir! Maðurinn er í grunninn tengslavera og þarfnast samskipta við aðra en ávöxtur góðra tengsla...

Posted by Hamingjuhornið on Sunnudagur, 11. október 2020
mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir