Standa í veseni vegna fjögurra hæna

Morgunblaðið

Baldur Þórhallsson og eiginmaður hans Felix Bergsson standa um þessar mundir í veseni við skipulagsfulltrúa Reykjavíkur vegna fjögurra hæna sem þeir fá ekki leyfi til þess að halda.

Þau Kristín Sif, Ásgeir Páll og Jón Axel slógu á þráðinn til Baldurs í morgunþættinum Ísland vaknar og fengu að heyra nánar um málið.

Baldur greindi þeim frá því að hann hefði sjálfur ekki fengið að vita um synjunina fyrr en hann las um það í fjölmiðlum.

„Ég held að þetta hljóti að vera einhver misskilningur hjá skipulagsfulltrúanum. Ég sótti um leyfi til heilbrigðiseftirlitsins hér í borginni til þess að fá að vera með fjórar hænur eins og má. Með fylgdi leyfi frá nágrönnunum hérna sitthvorumegin við húsið og staðsetning á lóðinni. Þetta var fyrir nokkrum vikum, síðan bara las ég það í blöðunum í gær að beiðninni hefði verið hafnað,“ sagði Baldur, sem ákvað í kjölfarið að grafast fyrir um málið.

„Þá vissi í rauninni heilbrigðiseftirlitið ekki af þessu heldur en skipulagsfulltúrinn hafði algjörlega grafið málið,“ sagði hann.

Baldur hefur sjálfur ekki fengið að heyra á hvaða forsendum en samkvæmt fjölmiðlum er það vegna þess að hænsnakofinn sjálfur er talinn standa á lóðarmörkum.

„En hann á að vera þrjá metra innan við lóðarmörk. Ég held að þetta sé einhver misskilningur hér á ferðinni því við erum á eignarlóð sem nær að vísu bara rétt út fyrir húsgrunninn en það er hundrað ára saga um nýtingu á miklu stærra svæði,“ sagði Baldur.

„Það verður nú aðeins að lífga upp á Reykjavík, sérstaklega þegar við megum ekki fara út fyrir höfuðborgarsvæðið. Við megum allavega ekki fara til Akureyrar og ég segi bara að ef við megum ekki fara í sveitina þá verður sveitin bara að koma til okkar,“ sagði Baldur og slær á létta strengi.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Baldur í spilaranum hér fyrir neðan: 

 

mbl.is

#taktubetrimyndir