Reiknar með að ástandið vari fram á næsta ár

Víðir Reynisson var í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar í …
Víðir Reynisson var í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun. Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra ræddi við þau Kristínu Sif, Ásgeir Pál og Jón Axel í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun.

Þar sagði hann Íslendinga mega búa sig undir það að ástandið í þjóðfélaginu vegna kórónuveirunnar verði langt fram á næsta ár. Þá ræddi hann einnig um íþróttastarf barna og fullorðinna ásamt fleiru.

Aðspurður hvort hann væri ekki þreyttur á því að þurfa að útskýra það sama aftur og aftur, dag eftir dag sagði Víðir svo ekki vera.

„Þegar maður eru sannfærður um það að það sem maður sé að gera sé rétt og mikilvægt að þá verður maður ekkert þreyttur. Eins og fótboltamaðurinn sem að veit hvað hann á að gera í hverjum einasta leik og gerir það aftur og aftur og reynir bara að gera það betur, bæta sig og leggja meiri áherslu á það sem skiptir mestu.“

Tímalínan óljós og erfitt að segja til um hvenær þessu lýkur

Víðir sagði ómögulegt að sjá hvort þær takmarkanir sem séu í gildi núna verði lengur en til 19. október en að þær aðgerðir sem gerðar hafi verið í mars séu að mörgu leyti sambærilegar og að rúmlega tveimur vikum eftir að þær hafi verið settar á hafi smit dottið ansi mikið niður.

Þá sagði Víði tímalínuna vera óljósa og sagði erfitt að reyna að segja til um það hvenær þessu yrði lokið.

„Við þurfum að undirbúa okkur undir það að þetta taki langt fram á næsta ár að gera þetta og ég held að það sé rétt að við setjum í langtímagírinn og undirbúum okkur undir það að þetta sé ekkert að fara frá okkur í dálítið langan tíma. Það þýðir auðvitað það að við þurfum að finna leiðina til þess að vera ekki að fá svona bylgjur upp aftur og aftur. Þegar við erum kannski aðeins komin lengra inn í þetta að þá sjáum við árangur af þessum aðgerðum og þá þurfum við að taka samtalið um það hvernig við ætlum að forðast það að fá svona bylgju aftur,“ sagði hann.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Víði hér fyrir neðan:

 

mbl.is