Ræddu um trans fólk í sundlaugum: Mikilvægt að fræða börnin

Lítil sem engin lagaleg vernd er hér á landi fyrir …
Lítil sem engin lagaleg vernd er hér á landi fyrir trans- og intersex-fólk. mbl.is/Styrmir Kári

Í gær birtist athyglisverð færsla á facebooksíðunni Mæðra tips sem vakti gríðarlega mikla athygli og viðbrögð. Færslan snerist um trans fólk í sundklefum og ræddu þau Ásgeir Páll, Kristín Sif og Jón Ásgeir við Tótlu Sæmundsdóttur fræðslustýru hjá Samtökunum '78 í morgunþættinum Ísland vaknar í morgun.

Jón Axel hóf umræðuna á því að lesa úr færslunni sjálfri:

„Langar að vita skoðun ykkar á einu máli sem snertir sundlaugar og trans fólk.

Vil taka það fram að ég er alls ekki á móti trans fólki, finnst auðvitað að allir eigi að fá að vera þeir sjálfir. Hins vegar finnst mér mikilvægt að réttindi eins traðki ekki á réttindum annarra. Í hverju það felst er svo auðvitað álitamál og munu aldrei allir verða sammála.

Málið er s.s. það að maðurinn minn og sonur fóru í sund í kvöld. Og þeir komu heim hálfstjarfir þar sem með þeim í sturtu var transmaður sem enn var líffræðilega kona (að vísu fleiri en einn, mislangt komnir í ferlinu).

Drengurinn, sem er bara 13, algjörlega fraus og honum leið svo illa. Kallinum leið enn verr liggur við því þetta var auðvitað alls ekki það sem þeir bjuggust við að sjá þegar þeir fara inn í kynjaskipta klefann ætlaðan karlmönnum (eftir líffræðilegu kyni).“

Tímarnir eru breyttir

Yfir átta hundruð athugasemdir hafa verið skrifaðar við færsluna og sagðist Tótla virkilega ánægð með að sjá að 95-98% þeirra sem svöruðu voru á sama máli og sögðu þetta ekki skipta neinu máli. Tímarnir væru breyttir og fólk væri að venjast hlutunum eins og þeir væru í dag. Konan sem skrifaði upphafsinnleggið ætti að ræða við barnið sitt og fræða það um trans fólk.

Jón Axel segir þá Ásgeir ekki vera með neina fordóma en þeir skilji þetta mál alls ekki. Þeir hafi alist upp við að það væru karla- og kvennaklefar sem skýr lína væri dregin á milli.

„Við kannski lifum í dag við þann raunveruleika að kyn er aðeins fjölbreyttara en við hugsuðum um þá,“ segir Tótla meðal annars.

Umræðuna í heild sinni má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is