Tónlistarmyndbandið tekið í einni töku

Þorgerður Ása söngkona.
Þorgerður Ása söngkona. Ljósmynd: Úr einkasafni

Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir var að gefa út sitt fyrsta lag af væntanlegri plötu. Lagið heitir „Þú munt sjá á eftir mér“ og gaf Þorgerður lagið út á sama tíma og tónlistarmyndbandið.

Bróðir hennar Álfgrímur Aðalsteinsson tók myndbandið upp en í því má sjá Þorgerði skutlast frá gamla vesturbænum niður í miðbæ Reykjavíkur á rafmagnshlaupahjóli í einni töku.

Þorgerður er helmingur af dúóinu Vísur og skvísur og stundaði hún nám við Norræna vísnaskólann í Kungälv í Svíþjóð ásamt því að læra jazzsöng í FÍH. Hún er undir sterkum áhrifum norrænnar þjóðlagahefðar þar sem einlæg túlkun texta í bland við ómþýðar laglínur er undirstöðuatriði í tónlistarflutningi hennar.

Lagið er glaðlegt og grípandi og myndbandið virkilega skemmtilegt.

mbl.is