Frumflutti nýtt lag í morgun

Lagið Sól rís með Bubba var frumflutt á K100 í …
Lagið Sól rís með Bubba var frumflutt á K100 í morgun. Ljósmynd: Kristinn Magnússon

Bubbi Morthens frumflutti nýjasta lagið sitt „Sól rís“ í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í morgun.

Þau Jón Axel, Ásgeir Páll og Kristín Sif heyrðu í Bubba í morgun og fengu að vita hvaðan hugmyndin að laginu kom ásamt upplýsingum um Þorláksmessu tónleikana sem hann stefnir á að vera með ef Covid leyfir.

„Er það rétt hjá mér Bubbi að þetta sé sólóplata númer 49?“ Spyr Kristín.

„Það veit ég ekkert um,“ segir Bubbi og hlær en eins og flestir vita hefur Bubbi gefið út lang flest lög af öllum íslenskum lagahöfundum og þó víða væri leitað.

Aðspurður út í hugmyndina af laginu segir Bubbi: „Það er það sem gerist alltaf alveg sama hvað. Sólin rís og sólin sest. Þetta er fyrsta lagið af ellefu laga plötu sem kemur út eftir áramót og ég er rosalega glaður með þetta lag.“

Bubbi segir hugmyndina hafa sprottið úr Fiðlaranum á þakinu frá laginu Sól rís, sól sest.

„Í 98% tilfella sest ég niður og ákveð að búa til lag, þá er það búið að blunda aðeins í mér. Þá er ég búin að hugsa að mig langi til að semja um þetta.

Um leið og þú sest niður og byrjar á lagi þá verður til annað lag og annað lag og annað lag. Fyrir þessa plötu hafði ég úr að velja einhvers staðar í kringum 60 lög,“ segir hann.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Bubba og nýja lagið hans í spilaranum hér fyrir neðan:

 Hlustaðu á lagið á Spotify hér:

mbl.is