Gerður finnur kúkalykt af öllu

Gerður var í einangrun í fimm vikur.
Gerður var í einangrun í fimm vikur. Ljósmynd: Rakel Ósk Sigurðardóttir

Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush fór til Spánar snemma á þessu ári og kom til baka smituð af Covid.

Hún ræddi við þá Loga Bergmann og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum þar sem hún lýsti bæði veikindunum sjálfum og eftirköstunum.

„Þetta var þarna í byrjun þar sem það var ekkert byrjað að greina neitt á Spáni þannig að manni grunaði ekkert að maður fengi þetta. Einkennin voru mikið kvef, ljótur hósti, andþyngsli og svo missti ég allt bragð og lyktarskyn,“ segir Gerður.

Erfiðasta að missa bragð og lyktarskynið

Gerður segir versta einkennið hafa verið það að missa bragð og lyktarskynið svo dögum og vikum skipti og að það hafi enn áhrif á hana í dag.

„Það fylgdi því líka lystarleysi og þá verður maður líka svolítið veikari því maður er ekkert að borða,“ segir hún.

Nú eru liðnir sex mánuðir síðan Gerður veiktist en hún var í einangrun í fimm vikur. Þrátt fyrir mikil veikindi segir Gerður eitt gráthlægilegt hafa komið út úr þessu.

„Þetta er svona eiginlega gráthlægilegt, ég veit ekki hvað maður á að segja. En eftir Covid fór bragð og lyktarskynið að koma hægt og rólega og ég myndi segja að bragðskynið væri komið svona 70% til baka. En lyktarskynið það er bara í einhverju rugli. Ég ætla bara að segja þetta hreint út. Ég finn kúkalykt af öllu og þið getið ímyndað ykkur hvað það er erfitt. Ég er kannski á „public“ stað og ég finn bara kúkalykt! Og ég er ekki ein í þessu. Fólk kallar þetta Covid fíluna þetta er svona rotin eggjalykt/kúkalykt,“ segir Gerður.

Viðtalið við Gerði er hægt að hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is