Lék hendurnar á Ólafi Darra

Stefán lék hendurnar á Ólafi Darra í þáttunum Ráðherrann.
Stefán lék hendurnar á Ólafi Darra í þáttunum Ráðherrann. Ljósmynd: Aðsend

Stefán Birkisson píanóstillir var fenginn til þess að leika hendurnar á Ólafi Darra í þáttunum Ráðherrann. Þar leikur Ólafur Darri formann Sjálfstæðisflokksins og á hann að spila á píanó í þáttunum.

Þar sem Ólafur Darri kann sjálfur ekki að spila á píanó var Stefán fenginn í verkið og heyrðu þau Ásgeir Páll, Jón Axel og Kristín Sif í Stefáni í morgunþættinum Ísland vaknar.

„Ertu oft fengin í það að vera hendur fyrir fræga leikara og slíkt?“ Spyr Ásgeir Páll.

„Nei þetta er fyrsta giggið mitt, en síðan að Covid byrjaði er búið að vera brjálað að gera hjá mér þar sem ég er búin að ganga á eftir Ólafi Darra og taka í hendurnar á fólki. Af því að hann vill það ekki, hann vill ekkert vera að koma við fólkið,“ segir Stefán og þau hlæja öll.

Þykir vera með þokkafullar hendur

„Ég hef aðeins spurst fyrir um þig og þú þykir vera með mjög þokkafullar hendur,“ segir Ásgeir Páll þá.

„Já er það Ásgeir. Við náttúrulega þekkjumst sko, þú ert alveg ótrúlegur,“ segir Stefán og hlær.

„Fékkstu vel borgað fyrir þetta?“ Spyrja þau.

„Já mjög vel, ég hef bara ekki þurft að gera neitt annað síðan ég fór í þetta,“ segir Stefán.

„Fékkst þér nýja Teslu og svona,“ segir Ásgeir.

„Já, já maður er bara eins og hinar stjörnurnar, fær sér nýjan bíl og svona,“ segir hann og hlær.

Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:mbl.is