Mikilvægt að kvensjúkdómar séu teknir alvarlega

Alexandra hefur barist við það að fá almennilega aðstoð vegna …
Alexandra hefur barist við það að fá almennilega aðstoð vegna veikinda sinna í langan tíma. Ljósmynd: Samsett

„Ég skil ósköp vel að það sé ekki verið að skrifa út sterk verkjalyf endalaust en það hlýtur að vera einhver millivegur á að fá morfín í æð og vera sendur heim með íbúfen og panodil. Það vill enginn verða fíkill eða vera valdur þess að einhver verði fíkill en það er ekki boðlegt að fullt af konum séu sárverkjaðar heima hjá sér marga daga í mánuði, jafnvel með fleiri slæma daga en góða. Geta ekki sinnt vinnu, heimili, hreyfingu, kynlífi eða gert það sem veitir þeim hamingju og gleði. Sársauki dag eftir dag, ár eftir ár er mannskemmandi og maður hættir að lifa lífinu lifandi. Allt verður erfitt og þú þarft að hugsa hvort þú ætlir að taka til eða gera eitthvað og eiga hættu á verkjakasti á eftir.“

Þetta segir Alexandra Ýrr Pálsdóttir í viðtali við K100.is. Alexandra bíður nú greiningar á veikindum sínum en grunur leikur á því að hún þjáist af Endómetríósu eða legslímuflakki sem er krónískur, fjölkerfa sjúkdómur sem getur verið afar sársaukafullur. 

Samkvæmt útskýringum samtaka um endómetríósu setjast endómetríósufrumur á yfirborðsþekju á hinum ýmsu líffærum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum. Þannig getur einstaklingur með endómetríósu verið með innvortis blæðingar í hverjum mánuði á þeim stöðum sem frumurnar eru og einnig geta myndast samgróningar á milli líffæra innan kviðarholsins eða annars staðar í líkamanum.

Stöðugar áhyggjur af því að missa vinnuna

Alexandra hefur barist við kerfið í langan tíma en því miður virðist lítil hjálp vera til staðar fyrir konur sem glíma við þennan sjúkdóm eða aðra svipaða.

„Ég skil ekki af hverju maður er ekki gripinn um leið og maður mætir á bráðamóttökuna með þessa sögu. Af hverju er ekki í boði óhefðbundin verkjameðferð með lyfjum, eins og til dæmis sjúkraþjálfun, nudd, nálastungur, hugleiðsla og alls konar fleiri úrræði,“ segir hún.

Alexandra er sjálf ný komin út á vinnumarkaðinn eftir að hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur í júní á þessu ári. Hún hefur þurft að vera frá vinnu í að minnsta kosti fimm vikur síðan hún hóf störf og er hún með stöðugar áhyggjur af því að missa vinnuna.

„Þetta allt einkennist af rosalegri óvissu, mun ég vera með verki að eilífu? Mun einhver hlusta? Konur eiga skilið betri þjónustu en þetta. Þegar maður mætir á spítalann vegna verkja er það vegna þess að maður er kominn á endastöð, maður ræður ekki lengur við aðstæður og þarf hjálp. Þá er mjög mikilvægt að þeir sem taki á móti manni sýni umburðarlyndi og skilning,“ segir hún.

Mætti miklu mótlæti á bráðamóttöku og kvennadeild

Ástæðan fyrir því að Alexandra ákvað að opna sig um þá erfiðleika sem hún hefur verið að takast á við er vegna þess að á föstudaginn síðastliðinn mætti hún miklu mótlæti vegna veikinda sinna. Hún segir baráttuna fyrir því að kvennasjúkdómar verði teknir alvarlegir vera mikilvæga.

„Föstudagurinn 18. september var ágætur dagur, ég svaf vel um nóttina og var ekki eins mikið verkjuð og dagana og vikurnar á undan. Ég ákvað að mæta í vinnu í fyrsta sinn í heila viku. Það gekk nokkuð vel, var reyndar þreytt og byrjaði fljótt að finna aðeins meira til, en ég þraukaði daginn. Þegar ég kom heim var ég í einhverjum „ég get allt“ ham og fór að endurskipuleggja og sortera í herbergi yngri sonar míns. Þegar ég var hálfnuð með það verk var mér orðið ansi illt en ég hélt samt áfram.

Þegar ég var búin sótti ég pizzu og lagðist upp í rúm og horfði á þátt. Eftir um klukkustund snarversnar verkurinn og ég fer að iða öll í rúminu, er komin á fjórar fætur, vaggandi fram og til baka og byrja að gráta. Ógleðin hellist yfir mig um leið. Ég fæ manninn minn til að sækja verkjalyf fyrir mig og ógleðistillandi. Hann hjálpar mér síðan í sturtu en ég gat ekki gengið án aðstoðar. Ég leggst í sturtubotninn og læt renna eins heitt vatn og hægt er beint á magann. Verkurinn minnkaði ekki við það en mér tókst betur að slaka á og anda mig í gegnum sársaukann. Síðan byrja ég að kasta upp, aftur og aftur og aftur,“ útskýrir Alexandra.

Kastaði upp sjö sinnum á leiðinni 

Eftir um þrjár klukkustundir af kvölum og uppköstum bað Alexandra manninn sinn um að fara með sig til læknis. Á leiðinni þangað kastaði hún upp sjö sinnum vegna verkja.

Vegna ástandsins í þjóðfélaginu voru engir aðstandendur leyfðir á bráðamóttökunni og þótti Alexöndru það gríðarlega erfitt.

„Ég fékk fljótt verkjastillingu, ógleðilyf og læknisskoðun. Það var ekkert brátt eða lífshættulegt að mér. Ég fékk vökva í æð þar sem ég var orðin mjög þurr og hélt engu niðri. Hjúkrunarneminn á næturvaktinni hugsaði svo vel um mig og lét mér líða eins og ég skipti máli. Ég þurfti endurteknar verkjalyfjagjafir þessa nótt og fékk það þegar ég þurfti. Síðan kom morgunn og urðu vaktaskipti á deildinni. Ég var færð á aðra stofu, fékk nýjan nema til að sinna mér. Sú hafði lítinn tíma til þess, sagðist ætla að sækja lyf fyrir mig en kom ekki aftur fyrr en 40 mínútum síðar, þegar verkirnir voru orðnir óbærilegir og uppköstin byrjuð á fullu aftur,“ segir hún.

„Byrjar þessi aftur, það er ekkert að henni.“

Alexandra fékk þá verkjalyf í töfluformi sem hún kastaði upp strax. Hún segist hafa upplifað sig fyrir öðrum sjúklingum en þegar hún var aðframkomin af verkjum ákvað hún að hringja bjöllunni og biðja um aðstoð. Það var þá sem Alexandra heyrði starfsfólkið tala um hana á niðurlægjandi hátt: „Byrjar þessi aftur, það er ekkert að henni.“

„Ég velti því fyrir mér hvort þær hefðu komið fram við mig af meiri fagmennsku hefðu þær vitað að ég var ein af þeim, hjúkrunarfræðingur,“ segir hún.

Þegar leið á daginn kom læknir sem ákvað að senda hana á kvennadeildina til verkjastillingar. Þar beið Alexandra kvalin og ælandi í þrjá klukkutíma eftir kvensjúkdómalækni.

„Þau spyrja mig um sögu mína og ég á í miklum vandræðum með að tala ég finn svo til og æli á nokkurra mínútna fresti. Síðan kemur sérfræðingurinn inn með látum, segir mér að afklæðast og rekur á eftir mér meðan ég erfiða við að klæða mig úr og koma mér á bekkinn. Skoðunin var sársaukafull og niðurlægjandi, ég ælandi og grátandi og læknirinn að segja mér að slaka á og að það sé ekkert að mér, ég sé bara að fara að byrja á blæðingum. Ég sé bara þreytt og það sé erfitt að höndla verki þegar maður sé þreyttur, þá verður ekki neitt neitt, allt í einu mjög mikið mál.“

Átti erfitt með andardrátt vegna gráturs

Alexöndru var ráðlagt að byrja á getnaðarvarnapillunni og að taka íbúfen og panodil. Á þessum tíma grét hún svo mikið að hún átti erfitt með andardrátt.

Nóttinni eyddi hún á kvennadeildinni þar sem hún fékk verkjastillingu og ógleðistillandi. Morguninn eftir greindi læknir henni frá því að samkvæmt sneiðmyndatöku sé ekkert alvarlegt að.

„Hann sagði að í CT hefði ekki mikið sést nema það að legið mitt væri aftursveigt og ég væri líklega mjög viðkvæm fyrir breytingum á leginu í kringum blæðingar, hann sagði líka að þvagblaðran væri föst við legið, sem ég vissi. Það var líka ein lítil blaðra á eggjastokk. Það sem aftur á móti sést ekki á mynd eru samgróningar og endómetríósa. Sem hann taldi vera líklega orsök minna verkja. En það er ekkert brátt að mér, svo ég bíð eftir viðtali við skurðlækni sem verður vonandi í byrjun nóvember.“

Fengi hún betri aðstoð ef hún væri ekki kona?

Nú þegar hefur Alexandra greitt um sextíu þúsund krónur fyrir læknisþjónustu og lyf í septembermánuði.

„Ég er búin að fara til kvensjúkdómalæknis, heimilislæknis, blóðprufur, röntgen, ct og búið að leggja mig inn. Ég var send heim með panodil, íbúfen og pilluna fyrir verkjum sem ég þurfti 8mg af morfíni til að slá á í rúma klukkustund.“

Eftir heimkomu lá Alexandra fyrir og verkirnir héldu áfram að versna. Ógleðin helltist yfir hana en hún gat ekki hugsað sér a leita sér hjálpar aftur.

„Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort ég væri búin að fá betri og meiri aðstoð ef ég væri ekki kona með kvenlíffæravandamál. Það er árið 2020 og það er ekki eðlilegt að finnast maður vera að dauða kominn vegna verkja og uppkasta út af túrverkjum. Eðlilegir túrverkir eru í versta falli óþægilegir. Ég er mjög þakklát þeim sem gáfu sér tíma til að hlusta og reyna að láta mér líða betur, en ég er bara orðin virkilega vonlaus. Ég reyni þó að vera bjartsýn og vona að tíminn í nóvember skili mér einhverju,“ segir hún að lokum.

mbl.is