Hræðileg myndbönd fyrir börn á YouTube

Í myndböndunum má sjá mannrán, ofbeldi og ýmiskonar níð.
Í myndböndunum má sjá mannrán, ofbeldi og ýmiskonar níð. Ljósmynd: Skjáskot

Það hefur færst mikið í aukana að ung börn og krakkar horfi á myndbönd á samfélagsmiðlinum YouTube. Þar getur margt sniðugt og áhugavert verið fyrir börn að horfa á en því miður leynast líka hræðileg myndbönd með ljótum skilaboðum þar inná.

Foreldrar hafa lengi verið hvattir til þess að fylgjast með notkun barna sinna á miðlinum og ekki að ástæðu lausu.

K100.is barst ábending þess efnis að nú gangi barna á milli myndbönd af teiknimyndafígúrum í svokölluðum „anime“ stíl sem sett eru upp sem hefðbundnar teiknimyndir. En ef vel er að gáð má sjá að í myndböndunum leynast barnaperrar, nauðganir, mannrán, ýmiskonar þvinganir og netníð. Þar eru krakkarnir í myndböndunum að taka myndir af kynfærum annara krakka og hóta því að senda myndirnar áfram.

Í einu myndbandi má sjá hvernig pabbinn kýlir móðurina svo hún fær glóðarauga og sonurinn fer að passa upp á hana.

Innihaldsefnið alls ekki fyrir börn

Það er ekki víst að öll börn átti sig á því um hverskonar efni er að ræða eða að þau skilji það til fulls en það er á hreinu að myndböndum af þessum toga þarf að vara við. Enda er innihaldsefni þeirra ekki fyrir ung börn þó myndböndin séu sett þannig upp.

Hægt er að finna margar útgáfur af þessum myndböndum á YouTube og þau eru ekki alltaf undir sama notandanum. Það er því mikilvægt fyrir foreldra að fylgjast með því efni sem börnin þeirra eru að skoða og að gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir að efnið líti sakleysislega út, líkt og um teiknimynd sé að ræða, að þá sé gjarnan eitthvað slæmt innihald sem leynist í efninu. 

Þá er einnig hægt að loka fyrir áhorf á hinu hefðbundna YouTube og stilla á svokallað KidsMode til þess að koma í veg fyrir myndbönd sem slík.

Hér fyrir neðan má sjá tvær útgáfur af þessum svokölluðu teiknimyndum svo foreldrar geti skoðað það hvort þeirra börn séu að horfa á slíkt efni.mbl.is