Ellefu hundar sungu fyrir Maríu

Hjónin eiga ellefu hunda í dag.
Hjónin eiga ellefu hunda í dag. Ljósmynd: María Björk

María Björk Guðmundsdóttir deildi skemmtilegu myndbandi af hundunum sínum taka lagið fyrir hana síðastliðinn sunnudag.

María og eiginmaður hennar eiga ellefu hunda af tegundinni Husky og eru þeir fyrst og fremst gæludýr þeirra en einnig vinnuhundar í fyrirtæki þeirra hjóna en þau hafa verið að ferðast með fólk í sleðaferðum og göngum.

Hundarnir eru fyrst og fremst gæludýr.
Hundarnir eru fyrst og fremst gæludýr. Ljósmynd: María Björk

„Þarna um morguninn var ég að hugsa um hvað það væri langt síðan ég heyrði þau syngja, fann gamalt myndband af elstu tíkinni minni að góla og spilaði það. Þá tóku allir undir,“ segir María í samtali við K100.is.

„Þetta er sérstaklega gaman með hóp að sjá hverjir góla fallega og hverjir eru falskir . Líka gaman að fylgjast með hvernig hvolparnir bregðast við,“ bætir hún við.

Byrjaði allt á einum hundi

María segir þau hjónin vera ósköp venjuleg hjón sem búa rétt fyrir utan Akureyri. Ástæðuna fyrir því hversu marga hunda þau eigi hafi byrjað með einum hundi fyrir rúmum níu árum síðan.

„Svo fengum við okkur annan, svo þriðja. Okkur var boðið að vera með sleðaferðir fyrir ferðamenn og áður en við vissum af vorum við komin með fleiri hunda, stærri bíl, fleiri sleða og flutt út í sveit. Hundarnir okkar eru fyrst og fremst gæludýrin okkar en eru einnig vinnuhundar í litla fyrirtækinu okkar. Þeir elska að fara með ferðamenn í sleðaferðir eða gönguferðir og ekki finnst þeim verra að fá heimsóknir þar sem er endalaust klapp og athygli,“ segir hún.

María með rakkana fimm en hún á einnig sex tíkur.
María með rakkana fimm en hún á einnig sex tíkur. Ljósmynd: María Björk

María segir tegundina ólíka mörgum öðrum hundategundum þar sem Husky geltir lítið en gólar frekar í staðinn.

Hundarnir eru með sína eigin Facebook og Instagram síðu þar sem hægt er að fylgjast með þeim.

mbl.is