Hrós vikunnar fær Guðrún Eva

Bergrún Íris Sævarsdóttir hrósar Guðrúnu Evu Mínervudóttur fyrir að leiðbeina …
Bergrún Íris Sævarsdóttir hrósar Guðrúnu Evu Mínervudóttur fyrir að leiðbeina fólki af miklu örlæti. Ljósmynd: Morgunblaðið/Samsett

Hér á K100 stefnum við ávallt að því að „hækka í gleðinni“ og er því viðeigandi að byrja allar vikur á jákvæðu og uppbyggilegu hrósi.

Það er sérstaklega mikilvægt að hrósa því sem vel er gert. Bæði höfum við öll gott af því að fá hrós, sem og að gefa það áfram. Hvað þá núna þegar veturinn nálgast, dagurinn styttist og kuldinn læðist að okkur.

Leiðbeinir af miklu örlæti

Það er rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir sem byrjar þennan fallega mánudag á því að veita hrós:

Hrós vikunnar fær rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir. Hún er með yndislegt lítið þorp í bakgarðinum hjá sér þar sem hún tekur á móti skrifandi fólki og leiðbeinir af miklu örlæti. Ég varði fjórum dögum í þorpinu, fékk andlega næringu og hvíld í sánu og heitum potti til skiptis. Guðrún Eva er gullfalleg sál og komin lengra en margir hvað varðar andlegan þroska. Mér finnst ég svo heppin að hafa fengið að læra af henni.

Fylgist með hér á K100.is þar sem við höldum áfram með hrós vikunnar og ef þú lumar á jákvæðu hrósi endilega deildu því með okkur.

mbl.is