Heimspekilegar pælingar á hlaupum

Dj Dóra Júlía flytur lesendum K100.is jákvæðar fréttir.
Dj Dóra Júlía flytur lesendum K100.is jákvæðar fréttir. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Góðan og gullfallegan mánudag kæru lesendur. Ég vona að helgin hafi verið róleg og hugguleg og að þið standið brött gagnvart glænýrri viku í óvissunni sem ríkir.

Enn og aftur er ég komin með heimspekilega pælingu á hlaupum. Þar sem ég eyði að jafnaði rúmum hálftíma af hverjum einasta degi úti að hlaupa þá bara get ég ekkert að því gert að hugsanir og pælingar tengdar hlaupunum streyma um heilabúið.

Ég fór að velta því fyrir mér í gær hvað það getur stundum verið erfitt að drífa sig út að hlaupa. Veðrið er kannski ekki skemmtilegt og við vitum ekki nákvæmlega hvernig hlaup við munum eiga.

Þurfum ekki alltaf að sjá fyrir endann

Enn fremur sjáum við ekki marklínuna þegar við leggjum af stað, við sjáum ekki fyrir endann á hringnum og það getur að einhverju leyti virst yfirþyrmandi. En svo leggur maður af stað og finnur fyrir fríska og góða loftinu og endorfíninu og allt í einu skiptir endapunkturinn ekki öllu máli. Við erum að hlaupa okkar leið og við þurfum ekki alltaf að sjá fyrir endann á því akkúrat á líðandi stundu.

Stundum fáum við vindinn í bakið, sem er eins og byr undir báða vængi, og við geysumst áfram. Á öðrum tímum mætir mótvindurinn okkur með krafti og við ef til vill hægjum aðeins á okkur, hristum útlimina og hvetjum okkur svo áfram. Við erum að hlaupa á okkar hraða og kunnum að hægja á okkur ef til þess kemur.

Það er ekki hægt að hlaupa með vindinn í bakið allan tímann alltaf, þá missum við af því að sjá ólík sjónarhorn, þessa hringsýn. Villumst jafnvel af leið og svo getur vindáttin alltaf breyst. Áður en við vitum af erum við svo komin að marklínunni, heim í tebolla endurnærð og við tekur ný áskorun af einhverjum toga.

Getum ekki stjórnað tíma og ástandi

Það er svolítið merkilegt hvað maður er gjarn á að vilja alltaf sjá fyrir endann á því sem á sér stað, sjá það sem á eftir að koma, þegar það einfaldlega er ekki hægt.

Við getum stjórnað mörgu en yfirnáttúrleg yfirsýn á tíma og ástand er ekki eitt af því.

Mér finnst yfirvegun, andardráttur og jákvæðni hjálpa heilmikið við að njóta líðandi augnabliks og svo kemur að því að allt í einu erum við komin í mark og þá taka við nýjar áskoranir. Þið standið ykkur vel og ég vona að við leyfum okkur að vera stolt af öllum litlu hlutunum, hvert augnablik fyrir sig.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist