Samlokusími á sterum: Græjutilraunastofan

Samsung Galaxy Z Fold 2 er nýjasti samloku snjallsíminn frá …
Samsung Galaxy Z Fold 2 er nýjasti samloku snjallsíminn frá Samsung. Ljósmynd: T3.com

Logi Bergmann og Siggi Gunnars fengu að skoða nýja Samsung Galaxy Z Fold 2 í græjutilraunastofu Elko í Síðdegisþættinum. Valur Hólm kom til þeirra og útskýrði fyrir þeim hvernig síminn virkar en hann er um margt ólíkur hinum hefðbundnu snjallsímum.

Siggi hefur orð á því að síminn sé eins og samlokusími á sterum en á honum eru þrír skjáir. Þegar síminn er opnaður verður skjárinn í raun eins og á iPad en þó er einnig hægt að vinna á hverjum skjá fyrir sig og hægt er að stjórna mörgum hlutum í einu.

Lúxusvara frá Samsung

Logi veltir því fyrir sér hvort síminn sé eitthvað sem fólk muni koma til með að nota, eða í raun þurfa, og útskýrir Valur þá fyrir þeim að síminn sé í raun þróaður sem lúxusvara frá Samsung.

Hægt sé að kaupa millistykki frá fyrirtækinu sem gerir fólki kleift að nota símann sem fartölvu. Hann sé með 12 gígabæta vinnsluminni sem er meira en margar fartölvur í dag.

Verðið á símanum er 369.995 krónur, sem þeir viðurkenna allir að sé gríðarleg upphæð, en í staðinn þurfir þú ekki að eiga iPad eða fartölvu.

„Ef menn nota þetta rétt þá er þetta ekki eins galið verð. Þetta er eins og Tesla; þú kemst alveg upp með Volkswagen en Teslan er geggjuð,“ segir Valur.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is