Söngvakeppnin haldin á næsta ári

Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin á næsta ári.
Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva verður haldin á næsta ári. Edsilia Rombley, Chantal Janzen, Jan Smit og Nikkie de Jager/ Ljósmynd: EBU / KRIS POUW

Eins og flestir vita var hætt við Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva í ár vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Til allrar hamingju mun söngvakeppnin þó snúa aftur á næsta ári og nú þegar er búið að undirbúa fjórar leiðir sem hægt verður að grípa til, allt eftir því hvernig ástandið í heiminum verður. Þann 22. maí á næsta ári verður því krýndur nýr sigurvegari.

Leið eitt: Venjuleg keppni

Ef bólusetning við Covid-19 verður orðin aðgengileg eða fljótlegar áreiðanlegar greiningar á veirunni komnar verður hægt að halda venjulega söngvakeppni frá Rotterdam í Hollandi. Þá munu allir keppendur mæta á svæðið og syngja í beinni útsendingu þaðan. Áhorfendur fá að vera viðstaddir.

Leið tvö: Eins og hálfs metra fjarlægðar takmörkun

Allir þátttakendur munu flytja lög sín í Rotterdam en þurfa að halda eins og hálfs metra fjarlægð. Takmarkað aðgengi verður fyrir áhorfendur svo að hægt verði að fylgja sóttvarnarreglum og hvert land fær aðeins að taka lágmarksfjölda fólks með sér. Einnig verður takmarkaður fjöldi fjölmiðlafólks á svæðinu.

Leið þrjú: Söngvakeppni með ferðatakmörkunum

Söngvakeppnin yrði haldin í Rotterdam og líkt og í leið tvö yrði takmarkaður áhorfendafjöldi. Þeir listamenn sem ekki geta ferðast til og frá sínu heimalandi fá að taka þátt í keppninni með því að flytja sitt lag frá sínu landi.

Leið fjögur: Evrópska söngvakeppnin haldin þrátt fyrir útgöngubann

Ef Hollandi verður lokað aftur þá mun söngakeppnin verða haldin þannig að hver og einn listamaður syngur frá sínu landi án allra áhorfenda.

Ákvörðun um það hvernig keppnin verður útfærð verður tekin snemma á árinu 2021 og verður gaman að fylgjast með því hvernig Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva mun takast til á næsta ári. Þema keppninnar verður það sama og átti að vera í ár eða „Open up“.

mbl.is