Tók kærastann upp í laumi í tvö ár

Kærustuparið Jo og Matt.
Kærustuparið Jo og Matt. Ljósmynd: Jo

Útvarpsþáttastjórnandinn Jo Russel hefur undanfarin tvö ár tekið hljóðupptökur af kærasta sínum, Matt Hastilow, í laumi.

Ekki nóg með það, heldur útbjó Jo í kjölfarið hlaðvarpsþætti (podcast) úr upptökunum þar sem hún ásamt tveimur vinum sínum Katy White og Mark Colerangle hlusta á Matt og ræða upptökurnar. Ástæðan fyrir því að Jo hóf að taka kærasta sinn upp í laumi var vegna þess hversu ótrúlega fyndinn henni þykir hann vera og hún vildi geta tekið húmor hans upp án þess að hann væri meðvitaður um það.

Opinberaði leyndarmálið

Nýlega gaf Jo út þátt númer 100 og í kjölfarið opinberaði hún fyrir kærasta sínum hvað hún væri búin að vera að bralla undanfarin tvö ár án hans vitundar. Nú þegar hafa tæplega ein og hálf milljón manns hlustað á þættina og þegar Jo opinberaði leyndarmálið fyrir Matt kippti hann sér lítið upp við það.

„Ég var ekki einu sinni viss um hvað hlaðvarp var svo þetta var svolítið mikið af upplýsingum í einu,“ sagði Matt.

Hlaðvarpsþættirnir I secretly recorded my boyfriend hafa slegið í gegn.
Hlaðvarpsþættirnir I secretly recorded my boyfriend hafa slegið í gegn. Ljósmynd: Spotify

Þegar Jo greindi Matt frá hlaðvarpinu hafði hún prentað út þá fallegu hluti sem aðdáendur hans höfðu sagt um hann og tók hún að sjálfsögðu upp viðbrögð hans.

„Það tók hann svona um það bil klukkutíma að skilja hvað ég var að segja honum. Hann fékk fyrst svolítið áfall en svo varð hann strax ánægður af því að ég sýndi honum öll frábæru skilaboðin um hann,“ segir Jo í viðtalið við Metro.

Aðdáendur Matt hafa greint frá því að upptökurnar séu svo fyndnar að þeir hafa legið í hláturskasti yfir þáttunum.

Hlaðvarpsþættirnir heita „I secretly recorded my boyfriend“ og er hægt að hlusta á þá á öllum helstu streymisveitum.

mbl.is