Nýtur lífsins þrátt fyrir krabbamein

Theo hefur farið á stefnumót, í partý, fengið pizzu og …
Theo hefur farið á stefnumót, í partý, fengið pizzu og flogið í flugvél. Ljósmynd: Caters

Þegar hinn þrettán ára gamli Theo sem er af tegundinni Golden Retriever greindist með ólæknandi krabbamein ákvað Jenny Leech, konan sem tók hann að sér í fóstur, að hjálpa honum eins og hún gæti að njóta tímans sem hann ætti eftir ólifaðan.

Jenny tók Theo að sér eftir að hann var yfirgefinn af fyrri eiganda sínum. Hún segir Theo vera svo hamingjusaman og líflegan hund að hún hafi ákveðið að búa til svokallaðan „bucket list“ með honum. Listinn inniheldur hluti sem Jenny telur að Theo muni elska að gera og hafa þau í sameiningu verið að vinna að því að geta strikað út af honum.

Nýtur lífsins.
Nýtur lífsins. Ljósmynd: Caters

„Listinn inniheldur allt frá einföldum hlutum eins og að fá bita af pítsu eða fá „puppachino“ á Starbucks og að því að fá að koma fram í innlendum sjónvarpsfréttum. Hann hefur nú þegar verið gestur á opnunarkvöldum, farið á slökkvistöðina og fengið að fara í litla flugvél. Hann fékk svo að fara í bílferð í blæjubíl, sem hann elskaði,“ segir Jenny í viðtali við Metro.

Jenny segir að þrátt fyrir að vera veikur sé Theo hamingjusamur. Hún setti listann hans Theos á Facebook og í kjölfarið hafi boltinn farið að rúlla.

Theo getur ekki gengið lengur.
Theo getur ekki gengið lengur. Ljósmynd: Caters

„Fólk hefur verið svo örlátt og Theo hefur fengið sent dót og nammi ásamt því að fólk hefur haldið partí fyrir hann,“ segir hún.

Dýralæknar hafa ekki getað sagt Jenny hvað Theo á langt eftir svo hún segist taka einn dag í einu. Veikindi hans hafa tekið toll af honum og í dag getur hann ekki gengið lengur en þrátt fyrir það stoppar hann ekki og dillar skottinu allan daginn að sögn Jenny.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist