Upplýsa fólk um mikilvæg málefni

Guðjón Ari og Eiður Axelsson Welding vekja athygli á mikilvægum …
Guðjón Ari og Eiður Axelsson Welding vekja athygli á mikilvægum málefnum. Ljósmynd: K100.is

Guðjón Ari og Eiður Axelsson Welding vinna saman að því að upplýsa fólk um málefni sem þeim þykir þörf á að ræða. Vinirnir mættu saman í þáttinn Ísland vaknar í gærmorgun og deildu því með hlustendum hvað það er sem þeir eru að gera.

Eiður fæddist með Cerebral Palsy (CP) sem á íslensku kallast heilalömun. Hann, ásamt Guðjóni, heldur um þessar mundir fyrirlestra þar sem hann útskýrir fyrir fólki hvernig það er að lifa með slíka fötlun.

Guðjón, sem gaf nýlega út bókina Náðu árangri í námi og lífi, segist alltaf hafa velt fyrir sér hvers vegna fólk hegðar sér eins og það gerir og af hverju það hugsar eins og það hugsar. Hann segir sölu bókarinnar hafa farið vel af stað.

Hinn 6. október næstkomandi er alþjóðadagur heilalömunar og segir Eiður fötlunina fá litla athygli hér á Íslandi miðað við það að hún sé sú algengasta.

„Við ætlum að halda fyrirlestur þar sem við ætlum að vekja athygli á þessari fötlun og þessum degi. Hvernig það sé að vera með CP í þessu samfélagi sem við lifum í í dag. Þetta er ákveðið róf eins og einhverfurófið og fólk getur verið með mjög væga fötlun en líka mjög mikla,“ segir Eiður sem lætur fötlun sína ekki stoppa sig.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is