Ekki taka náttúrunni sjálfsagðri

Góð núvitundaræfing að upplifa haustlitina.
Góð núvitundaræfing að upplifa haustlitina. Morgunblaðið/Ómar

Góðan og gullfallegan miðvikudaginn og gleðilegan dag íslenskrar náttúru, 16. september! Við erum svo ótrúlega heppin með guðdómlega fallega náttúru sem veitir friðsæld og fegurð. Okkur ber skylda til að virða hana, koma vel fram við hana og við megum ekki taka hana sem sjálfaögðan hlut.

Mér finnst íslenska náttúran eiginlega aldrei fallegri en akkúrat nú, á haustin. Haustlitirnir hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá undirritaðri, svo djúpir og dásamlegir og búa yfir ofboðslega miklum sjarma. Ég finn hvað þeir veita mér mikla gleði og á hverju ári fer ég í dagsferð á haustin til Þingvalla, sem er bara eins og að fara á eitt fallegasta listasafn sem ég get hugsað mér. Náttúran, hið lífræna og stórfenglega listform.

Það er svo góð núvitundaræfing að upplifa haustlitina sem á vegi okkar verða. Ég mæli eindregið með því að leyfa sér að vera meðvitaður um þá og njóta þess. Fara í góðan og hægan göngutúr og velta fyrir sér náttúrunni sem umlykur okkur og þeim áhrifum sem hún hefur á sálarlífið. Bara passa sig að verða ekki kalt!

mbl.is