Ekkert vegan starfsfólk

Jóhannes segir auglýsinguna hafa fengið mikla athygli.
Jóhannes segir auglýsinguna hafa fengið mikla athygli. Ljósmynd: CrumbyVegan

Jóhannes Pétur Héðinsson auglýsti á dögunum eftir starfsfólki við hellulögn hjá fyrirtækinu Vogakletti. Auglýsinguna setti Jóhannes á síðuna Vinna með litlum fyrirvara á samfélagsmiðlinum Facebook og vakti hún gríðarlega mikla athygli.

Margir tóku auglýsinguna nærri sér.
Margir tóku auglýsinguna nærri sér. Ljósmynd: Skjáskot

Ekkert vegan

Logi Bergmann og Siggi Gunnars slógu á þráðinn til Jóhannesar í Síðdegisþættinum og forvitnuðust um auglýsinguna og söguna á bak við það hvers vegna Jóhannes vildi ekki ráða inn starfsfólk sem væri vegan.

„Þetta eru nú eiginlega tvær sögur sem koma saman. Annars vegar var ég að auglýsa um daginn og fékk mjög lítil viðbrögð og félagi minn var að segja mér að myndin sem ég hefði sett með væri svo leiðinleg, það yrði að vera eitthvað áhugavert og skemmtilegt.

Ég átti enga áhugaverða og skemmtilega mynd af hellulögnum en það rifjaðist upp fyrir mér að bróðir minn hafði sent mér auglýsingu sem Kári bóndi í Garði í Mývatnssveit hafði búið til þegar hann var að auglýsa eftir vinnumanni og þessi auglýsing fór að fljúga manna á milli af því að neðst á henni stóð ekkert vegan.

Ég ákvað að prófa þetta, hvort pósturinn fengi meiri athygli og meira „bump“ ef ég setti þetta neðst og það svoleiðis svínvirkaði. En svona í trúnaði og ef þið farið ekkert með það lengra að þá er mér nú alveg sama hvað fólk borðar sko,“ segir Jóhannes.

Auglýsing Jóhannesar fór í kjölfarið á mikið flug og uppskar hann bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð. Margir áttuðu sig á að um grín væri að ræða á meðan aðrir sögðu Jóhannes vera með fordóma.

Viðtalið við Jóhannes má hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan:mbl.is