Liturinn og lakkið ekki skaðlegt

Steinunn pantaði sérstakan hárlit og naglalakk fyrir Monsu.
Steinunn pantaði sérstakan hárlit og naglalakk fyrir Monsu. Ljósmynd: Úr einkasafni

Steinunn Svavarsdóttir pantaði sér á dögunum sérstakan háralit til þess að lita hundinn sinn Monsu sem er af tegundinni Toy Puddle. Bleikur litur varð fyrir valinu og keypti Steinunn einnig sérstakt bleikt naglalakk fyrir hana.

Í gær deildi Steinunn svo mynd af Monsu á facebooksíðunni Hundasamfélaginu við misjafnar undirtektir. Sumum fannst hugmyndin alveg fráleit en aðrir voru hrifnir af uppátækinu.

Steinunn segir í viðtali við K100.is að hún nenni ekki að standa í því að svara þeim sem séu með leiðindi enda séu þeir einfaldlega að reyna að rífast.

Ný snyrt og fín.
Ný snyrt og fín. Ljósmynd: Úr einkasafni

Efnið ekki skaðlegt dýrum

Hún segist aðspurð hafa séð þennan sérstaka hundalit hjá förðunarfræðingnum fræga Jeffree Star, sem hefur lagt það í vana sinn að lita pomeranian-hundinn sinn bleikan.

„Ég sá þetta í fyrsta skiptið hjá honum og síðan fór ég að skoða þetta betur á instagram. Þar fann ég konu sem vinnur bara við að lita og skreyta hunda og komst þá að því að efnið er ekki skaðlegt dýrum. Ég kíkti þá á Amazon og pantaði svona „temporary colouring“ og naglalakk sem heitir Pawdecure. Það er ekki heldur skaðlegt og er framleitt sérstaklega fyrir hunda,“ segir Steinunn.

Monsa hvílir sig eftir snyrtinguna.
Monsa hvílir sig eftir snyrtinguna. Ljósmynd: Úr einkasafni

Steinunn segist ekki halda að neinn hundasnyrtir liti hunda hérlendis en þetta sé mjög algengt í Bandaríkjunum.

„Sá sem hefur klippt hundinn minn í átta ár hefur aldrei gert þetta áður. Ég held að enginn hafi gert þetta á Íslandi, ekki sem ég veit af allavegana. En ég sá í ummælum í gær að það var allavega ein sem hefur litað hundinn sinn. En þetta er mjög vinsælt í Ameríku, þeir eru reyndar svolítið ýkt þjóð og þar eru svona keppnir þar sem verið er að klippa og spreyja listaverk í feldinn á stórum púðluhundum.“

Stígur ekki í drullupolla

Steinunn segir Monsu lítið hafa kippt sér upp við litinn enda sé hún algjör prímadonna fyrir.

„Þetta er reyndar búið að fara svolítið fljótt úr henni vegna þess að það hefur verið rigning og svona. Ég ætla ekkert alltaf að hafa hana bleika, mig langaði bara að prófa þetta. Ég fór með hana á stofu að gera þetta og henni er alveg sama. Hún hefur verið að fara í bað og klippingu síðan hún var pínulítil. Fyrir henni er þetta ekkert öðruvísi en að setja sjampó og næringu, hún finnur engan mun. Hún er svo mikil prímadonna, fer fram hjá öllum drullupollum sem hún sér og svona,“ segir Steinunn.

Bleikur er greinilega í uppáhaldi.
Bleikur er greinilega í uppáhaldi. Ljósmynd: Úr einkasafni

Aðspurð segir Steinunn að liturinn fari líklega fyrr úr hér á landi vegna rigningarinnar og þá segir hún að starað sé á þær í göngutúrum.

„Hvert sem ég fer með hana út að labba þá er starað á hana. Það var ein sem spurði mig út í þetta í gær og fannst hún voða sæt og algjört æði. Ég hef sem betur fer ekki lent í neinum leiðindum með þetta.“

mbl.is