Sagan á bak við Popplag í G-dúr: Hver var bömmerinn?

Popplag í G-dúr kannast flestir íslendingar við.
Popplag í G-dúr kannast flestir íslendingar við. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Valgeir Guðjónsson var viðmælandi Sigga Gunnars og Loga í Síðdegisþættinum, þar deildi hann meðal annars sögunni á bak við Popplag í G-dúr.

Lagið vinsæla hefst á orðunum „Hér er ég staddur á algjörum bömmer“ og veltir Logi því fyrir sér hver bömmerinn sé og spyr Valgeir út í sögu lagsins.

„Þetta var ort um páskana, og við fjölskyldan vorum í sumarbústað á Þingvöllum þar sem var óskaplega fallegt útsýni og svona. Ég fór einn og lokaði mig inni í svefnherberginu með gítar og byrjaði einhvern veginn að spila svona, já þessi fjögur grip. Já, það eru bara fjögur grip í þessu lagi, hugsið ykkur. Allt fyrir peninginn,“ segir Valgeir og þeir skella allir upp úr.  

Lagið varð til á hálftíma

„Ég sem sagt byrja bara á þessari línu: „Hér er ég staddur á algjörum bömmer,“ og svo bara einhvern veginn vatt þetta upp á sig. Ég samdi lagið svona, þetta hefur kannski tekið mig svona hálftíma. Ég var að þangað til ég var rekinn út úr herberginu til þess að koma og borða. Það var páskalambið,“ segir hann.

Þá segir Valgeir lagið hafa margar tilvitnanir í Biblíuna og að upphafssetninginn vitni í Jobsbréf sem var alltaf svo þungur á sér að hann sá aldrei til sólar.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:mbl.is