Vill glansmynd foreldrahlutverksins í burtu

Foreldrahlutverkið getur stundum verið virkilega erfitt. Stefanía vill opna umræðuna.
Foreldrahlutverkið getur stundum verið virkilega erfitt. Stefanía vill opna umræðuna. Mynd: Úr einkasafni

Stefanía Rut Hansdóttir er þriggja barna móðir sem er nýflutt heim til Íslands aftur, eftir að hafa verið í námi í Danmörku undanfarin ár.

Eins og gefur að skilja er nóg að gera hjá fjölskyldunni við að koma sér fyrir, hefja nýja rútínu í skólum og leikskólum og getur svoleiðis tími gjarnan orðið svolítið yfirþyrmandi fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Missti þolinmæðina 

Á dögunum átti Stefanía einmitt yfirþyrmandi dag sem einkenndist af endalausu skutli hingað og þangað, afmælisveisla, búðin, elda mat og fleira.

„Já ég veit og þið vitið, bara partur af þessu. Eðlilegt, en yfirþyrmandi á köflum,“ segir Stefanía í færslu sem hún skrifar til hóps kvenna á Facebook þar sem mæður eru samankomnar til þess að keppast við að ræða og sýna frá raunveruleika fjölskyldulífsins.

„Það sem gerist þarna einhverstaðar er að ég missi þolinmæðina á yngstu sem öskraði af sér lungun í bílnum í háanna traffík tíma, vegna þess að hún vildi fara í afmæli eins og stóra systir. Hún öskraði svo mikið að ég legg bílnum í bílastæði og bið hana um að hætta að öskra ítrekað. Hún gerir það ekki, ég missi þolinmæðina í stresskasti, fleygi bangsa aftur í og æpi til baka: Viltu hætta þessu öskri! Öskrandi sjálf??!“ Segir hún.

Brotnaði niður á rauðu ljósi

Á þessu augnabliki segist Stefanía hafa áttað sig á því hversu mikið aðstæðurnar væru út í hött.

„Ég andaði og baðst afsökunar á því að hafa gargað. Hún róaðist, ég róaðist og þá sagði hún: Mig langar bara líka í köku. Hún var ekkert með í mínu stressi en ég dró hana í það án þess að pæla einu sinni í því afhverju krakkinn væri að öskra núna. Henni langaði í köku í afmælinu. Ég fattaði ekki. Ég brotnaði niður á rauðu ljósi yfir þessum æstu viðbrögðum mínum. Tárin streymdu bara.

Mikið er erfitt stundum að vera fullorðin og hafa hemil á sér í amstri dagsins. Burt með glansmyndir af foreldrahlutverkinu. Ég er ekki ein. Þú ert ekki ein. Anda, slaka, fyrirgefa sjálfum sér og gera betur næst. Við áttum dásamlegt kvöld eftir það,“ segir Stefanía sem vill með því að opna sig um hluti sem þessa, opinbera raunveruleika þess að vera foreldri.

mbl.is