Gefa út prjónabók saman

Vinkonurnar hafa þegar gefið út prjónalínu saman og stefna nú …
Vinkonurnar hafa þegar gefið út prjónalínu saman og stefna nú á heila prjónabók. Ljósmynd: Eygló Gísla

Vinkonurnar og samstarfskonurnar Salka Sól Eyfeld tónlistarkona og Sjöfn Kristjánsdóttir eigandi Stroff.is, sem gáfu saman út prjónalínuna „Unu“, stefna nú á að gefa út prjónabók saman.

Í samtali við K100.is segir Sjöfn að margar nýjar uppskriftir muni birtast í bókinni í bland við eldri vinsælar uppskriftir.

„Bókin verður stútfull af uppskriftum, nýjum og gömlum, myndum og alls konar frábæru sem hver og einn prjónari verður að skoða. Þetta er til dæmis Unu-línan eins og hún leggur sig með nokkrum nýjum uppskriftum í þeirri línu. Uppskriftirnar eru blandaðar, barna, unglinga, fullorðins og hunda og allt frá sokkum og vettlingum upp í heilgalla.“

Margt sem þarf að huga að

Sjöfn segir undirbúning bókarinnar ganga vel en viðurkennir að það sé mikill hraði á öllu enda margt sem þurfi að huga að.

„Allar nýjar uppskriftir þurfa að fara á blað og í útreikninga og svo í prufuprjón svo þetta er talsverð vinna en svo innilega þess virði. Svo allt sem tengist því að gefa út bók sem við höfum ekki kynnst áður eins og velja letur, liti, myndataka, umbrot og þannig mætti lengi telja.

Við erum á rosa fart að klára allar uppskriftir og senda á útgefanda. Bókin fer í prentun í lok september svo hún komist á markað í nóvember. Við viljum taka þátt í hinu sívinsæla jólabókaflóði,“ segir hún.

Sjöfn segir verkefnið virkilega skemmtilegt og að hún hlakki mikið til þess að fá meistarastykkið í hendurnar. Hún segir hönnun bókarinnar fallega og að bókin verði handhæg svo fólk muni vilja hafa hana á sófaborðinu til sýnis.

mbl.is