Stjörnufréttir Evu Ruzu eru komnar í loftið á K100

Eva Ruza er mætt til leiks á K100.
Eva Ruza er mætt til leiks á K100. Kristinn Magnússon

Samfélagsmiðlastjarnan og skemmtikrafturinn Eva Ruza gengur til liðs við K100 og mun halda úti daglegum pistlum um það sem er að frétta af fræga fólkinu.

Hún hefur einstakan áhuga á þeim ríku, frægu, fínu og fallegu og heldur úti fréttasíðu á evaruza.is. Nú munu hlustendur K100 fá allt slúðrið beint í æð frá Evu en einnig munu birtast pistlar frá henni á vefnum K100.is.

„Eva er algjörlega fædd fyrir útvarp, með svo mikla útgeislun og sjálfsöryggi sem eru kostir sem fjölmiðlafólk þarf að hafa.

Hún hefur verið að leysa af í síðdegisþættinum á K100 og staðið sig einstaklega vel þar svo þegar tækifærið kom til þess að ráða hana inn í fast verkefni var ég ekki lengi að stökkva á það,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson dagskrár- og tónlistarstjóri K100.

Hollywood hefur átt hjarta Evu síðan hún var unglingur

„Okkar einkennisorð eru að hækka í gleðinni og það gerum við svo sannarlega með því að fá Evu til liðs við okkur,“ segir Sigurður.

„Hollywood hefur átt hjarta mitt síðan ég var unglingur og mætti í raun segja að ég sé talskona hinna ríku og frægu frá Hollywood. Kem því í loftið sem skiptir máli.

Það er kominn tími á að þessar virðulegu fréttir heyrist á K100 daglega. Það hafa allir gott af því að gleyma amstri dagsins og fá dass af Hollywood beint í æð. Ég segi bara fulla ferð áfram beint til Holly!“ segir Eva Ruza.

Hægt er að fylgjast með Evu á Instagram undir notandanafninu: Eva Ruza

mbl.is