„Ég hef falið örin mín of lengi“

Guðrún hefur barist við sjálfsskaða.
Guðrún hefur barist við sjálfsskaða. Ljósmynd: Úlfhildur Örnólfsdóttir

Guðrún Katrín Gunnarsdóttir er tuttugu og eins árs gömul og búsett á Akureyri. Hún fór á dögunum í myndatöku þar sem hún opinberaði baráttu sína við sjálfsskaða.

Ljósmyndirnar eru vægast sagt átakanlegar og fallegar í senn en það var ljósmyndarinn Úlfhildur Örnólfsdóttir sem tók þær.

Í viðtali við K100.is segir Guðrún ástæðuna fyrir því að hún ákvað að opinbera sig vera þá að hún vill gera fólki grein fyrir því að sjálfsskaði sé sjúkdómur en ekki val.

„Ástæðan fyrir því að ég birti þessar myndir er til þess að reyna að gera fólki grein fyrir því að þetta er sjúkdómur. Það eru of margir sem halda að þetta sé eitthvað val, sem er ekki rétt. Ég vil líka vekja athygli á sjálfsskaða því þetta er algengara en maður myndi halda og þetta hjálpar mér í minni endurhæfingu vegna þess að ég hef falið örin mín of lengi,“ segir hún.

Ljósmynd: Úlfhildur Örnólfsdóttir

Guðrún segir ekki eitthvað eitt valda sjúkdómnum heldur hafi hún gengið í gegnum ýmislegt á ævinni sem hefur mikið með hann að gera.

„Þessi sjúkdómur er ekki spretthlaup heldur langhlaup sem hefur áhrif á alla sem að mér standa, ég er svo óendanlega þakklát fyrir fólkið mitt. Sjálf hef ég ekki enn sigrast á þessu en ég hef ekki skaðað mig í 126 daga. Ég tek einn dag í einu og ég vonast til þess að myndirnar og umfjöllunin hjálpi öðrum sem eru kannski í sömu sporum. Líka aðstandendum að skilja betur hvað er í gangi,“ segir hún.

Gott að tala við þá sem standa manni næst

Guðrún segist hafa fengið virkilega góð viðbrögð við deilingu myndanna og að hún sé rosalega ánægð með það.

Aðspurð um hvað það er sem hún sjálf mæli með fyrir fólk í svipuðum sporum og hún er að byrja á því að leita sér hjálpar hjá sálfræðingi.

„Einnig eru til mörg samtök eins og Bjarmahlíð og Aflið á Akureyri. Svo er gott að tala við þá sem standa manni næst.“

Úlfhildur ljósmyndari myndaseríunnar „Elskaðu“ segir mikið hafa verið fjallað um jákvæða líkamsímynd síðustu misseri en með myndaseríunni vilji hún vekja athygli á því að jákvæð líkamsímynd fjalli ekki eingöngu um holdarfar heldur hafi það stærra samhengi.

Ljósmynd: Úlfhildur Örnólfsdóttir

"Elskaðu er ljósmyndasería sem fjallar um að elska líkama sinn eins og hann er og er markmiðið að sýna hversu alvarlegar afleiðingar geðsjúkdómar, sem og neikvæð líkamsímynd, geta haft og að stundum eru örin sjáanlega og bókstafleg. Jafnframt er markmið verksins að sýna fegurðina í sársaukanum, í þroskanum og sjálfseflingunni, hversu fallegt það er að vinna sig út úr sjálfskaðandi hegðun og læra að elska sjálfan sig eins og maður er. Örin gera manneskjuna ekki síður fallega, hvort sem að innan sem utan. Allir líkamar eru fallegir og elskanlegir, líka með örunum sem við berum utan á okkur eða innra með okkur," segir Úlfhildur.  

Ljósmynd: Úlfhildur Örnólfsdóttir
Ljósmynd: Úlfhildur Örnólfsdóttir
Ljósmynd: Úlfhildur Örnólfsdóttir
Ljósmynd: Úlfhildur Örnólfsdóttir

mbl.is