Stofnar Glee-hóp á Íslandi

Íslenskur Glee hópur í burðarliðnum.
Íslenskur Glee hópur í burðarliðnum.

Axel Ingi Árnason stendur nú í því að stofnsetja sönghóp undir nafninu Viðlag. Sönghópurinn verður enginn venjulegur kór en um er að ræða hálfgerðan kammerkór í svipuðum dúr og Glee.

Siggi Gunnars og Logi tóku viðtal við Axel í Síðdegisþættinum og fengu nánari upplýsingar um verkefnið.

„Hvaðan kemur þessi hugmynd?“ spyr Siggi.

„Það er búin að vera, finnst mér, vöntun á svona minni sönghóp. Svona hálfgerðum kammerkór nema með áherslu á popptónlist og söngleikjatónlist,“ segir Axel og bætir því við að hann hafi sett sig í samband við nokkra krakka sem séu svolítið inni í söngleikjasenunni á Íslandi og þau hafi öll verið sammála um að þetta væri nokkuð sem vantaði.

Strákar ragari við að taka þátt

Axel segist stefna á að fá inn 16-20 manns en haldnar verða prufur í lok september.

„Eins og þetta er á Íslandi, eða bara víðast hvar, þá eru strákar alltaf ragari en stelpur við að fara í svona. Ég geri ráð fyrir að það fari eftir því hvað ég fæ marga góða stráka – af því að það verður alltaf nóg af geggjað flottum stelpum sem sækja um en svo er bara spurning um hversu margir flottir strákar sækja um – þá get ég þá fyllt upp í restina með stelpum. Ég geri ráð fyrir að þetta verði svona 16-20 manns og að þetta geti orðið flottur hópur,“ segir hann.

Axel segir viðbrögðin við hugmyndinni vera góð og að strax sé kominn góður hópur af fólki.

Þeir sem vilja sækja um að komast í opna prufu geta skráð sig á netfangið: axelingi89@gmail.com

Hægt er að hlusta á viðtalið við Axel í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:mbl.is