Varar við hræðilegu myndbandi á TikTok: Biðlar til foreldra að fylgjast með notkun barnanna

Ronnie hefur verið lýst sem umhyggjusömum og góðum manni.
Ronnie hefur verið lýst sem umhyggjusömum og góðum manni. Mynd: Samsett

Ormur Guðjónsson varð fyrir því á dögunum að rekast á virkilega óhuggulegt myndband á samfélagsmiðlinum TikTok og mælir hann eindregið með því að foreldrar fylgist með notkun barnanna sinna á þessum vinsæla miðli.

Myndbandið sem um ræðir er af Ronnie McNutt sem framdi sjálfsvíg í lok ágúst á þessu ári. Ronnie sem hafði nýlega misst vinnuna og kærustuna sína á sama tíma tók þá ákvörðun að fremja sjálfsvíg í beinni útsendingu á Facebook live.

Myndböndin sem nýlega fóru í dreifingu á TikTok eru mismunandi og virðast þeir sem deila myndböndunum útbúa ný myndbönd um leið og starfsmenn TikTok eyða þeim út.

„Ég var bara að skrolla og svo allt í einu kemur þetta myndband, það var minna en sekúnda áður en hann tók í gikkinn þannig að ég skyldi ekki strax hvað var í gangi,“ segir Ormur í viðtali við K100.

Var gráti nær

Ormur varar foreldra sérstaklega við myndbandinu og hvetur þá til þess að fylgjast með því sem börnin þeirra eru að horfa á.

„Ég lenti í því að sjá myndbandið og ég, 26 ára fullvaxta karlmaður, var gráti nær, þetta er virkilega slæmt myndband. Fólk er að gera hræðilegan dauðdaga þessa sárveika manns að brandara og „meme-i. Plís passið upp á börnin ykkar,“ segir hann.

Ormur útskýrir í samtali við blaðamann að fólkið sem hafi deilt myndbandinu hafi verið að útbúa svokölluð „jumpscare“ þar sem myndbandið byrjar kannski með sætum kettlingi eða hvolpi og skipti svo skyndilega yfir á Ronnie fremja sjálfsvíg. Þá hafi aðrir verið að deila myndbandinu með vinsælum lögum eins og „Skeleton Dance“ og deilt því á bæði YouTube, Facebook og TikTok.

Erlendi miðillinn The Sun hefur fjallað um málið og segjast eigendur TikTok vera að berjast við það að eyða myndböndunum jafnóðum út af miðlinum.

„Kerfið okkar hefur sjálfkrafa fundið þessi myndbönd og við erum að banna þá notendur sem deila þeim. Við erum þakklát þeim notendum sem hafa látið okkur vita af myndböndum og varað aðra við því að horfa á þau eða deila þeim af virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldu hans.“


 

mbl.is