Forréttindi að fá að eldast

Dóra Júlía segir það forréttindi að fá að eldast.
Dóra Júlía segir það forréttindi að fá að eldast. Mynd: Morgunblaðið

Í dag hef ég farið 28 hringi í kringum sólina, sem lífvera á þessari jörð. Ég er mikill aðdáandi sólarinnar og nýt þess til hins ýtrasta að ferðast hringinn í kringum hana og í leiðinni þroskast, þróast, læra, upplifa og jú eldast.

Það eru nefnilega mikil forréttindi að fá að eldast og fá tækifæri til þess að líta til baka og sjá hvert maður er kominn og hvað maður er þakklátur fyrir. Mér finnst alltaf skemmtilegt að lista niður hvað ég hef helst lært frá ári til árs og finn að með ári hverju á ég í betra sambandi við sjálfa mig. Ég kvíði hækkandi aldri ekki neitt og kann betur að meta allt í kringum mig eftir því sem ég læri meira á þetta líf.

Lífið getur aldeilis leynt á sér og það sem ég hef meðal annars skilið betur er að ég hef ekki minnstu hugmynd um hvert það tekur mig að ári liðnu. Það sem ég veit er að ég get haft gífurleg áhrif á samband mitt við sjálfa mig og með því get ég myndað betra samband við vini, fjölskyldu, kunningja og þá sem á vegi mínum verða.

Ég er alveg ómetanlega þakklát fyrir verðmætið sem í því liggur. Njótum þess að eldast og fögnum tækifærunum sem fela í sér að læra meira og dýpka skilningarvitin.

mbl.is