Áramótaskaupið gæti orðið langt í ár

Hugleikur ræddi drögin að Áramótaskaupinu í útvarpsþættinum Ísland vaknar.
Hugleikur ræddi drögin að Áramótaskaupinu í útvarpsþættinum Ísland vaknar. Morgunblaðið/Ernir

Rithöfundurinn og uppistandarinn Hugleikur Dagsson er einn af höfundum Áramótaskaupsins í ár. Í viðtali í útvarpsþættinum Ísland vaknar í morgun ræddi Hugleikur um drögin að skaupinu.

„Er komin einhver lína í skaupið, hvernig ramminn verður?“ spyr Jón Axel.

„Já við ætlum allavegana að fjalla um kórónuvírusinn. Já, já, þá er það komið,“ segir Hugleikur og þau skella öll upp úr.

„En verður skaupið þá þrír tímar í ár miðað við hvernig þetta ár hefur verið?“ spyr Jón þá.

„Já, vegna þess hversu lengi þetta ár er búið að vera að líða á skaupið líka að vera lengi að líða. Já ætli það ekki. Það er pæling að hafa bara skilti í 45 mínútur á skjánum sem stendur á: „Fáið ykkur bara að drekka, þetta verður búið rétt bráðum,““ segir Hugleikur og hlær.

Kristín veltir því fyrir sér hvernig höfundar áramótaskaupsins muni skrifa handritið og hvort þau þurfi öll að hittast á zoom-fjarfundarforritinu. Hugleikur svarar því til að þar sem hann sé búsettur í Berlín um þessar mundir muni hann að minnsta kosti þurfa að gera það.

Þarf að vera fyndnari 

Hugleikur flutti til Þýskalands rétt áður en heimsfaraldurinn skall á til þess að stunda uppistand. Hann segir það hafa reynst erfitt vegna kórónuveirufaraldursins en hann hafi þó í eitt skipti farið út eftir að grímureglan og tveggja metra reglan var sett á.

„Maður þarf bara að vera fyndnari af því að það eru færri í salnum,“ segir hann og viðurkennir að þrátt fyrir að hann búi úti núna sé hann alltaf með annan fótinn heima á Íslandi.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is