Ætlaði að verða fornleifafræðingur

Manúela Ósk Harðardóttir
Manúela Ósk Harðardóttir Instagram

Eigandi fegurðarsamkeppninnar Miss Universe Iceland, Manúela Ósk kom í síðdegisþáttinn til Sigga Gunnars og Evu Ruza á fimmtudaginn síðastliðinn og svaraði þar tuttugu ógeðslega mikilvægum spurningum.

Árið 2002 sigraði Manúela keppnina ungfrú Ísland og muna eflaust margir eftir því að kjóllinn sem hún keppti í fékk hún að gjöf frá engum öðrum en Mike Tyson. Sigga lék forvitni á að vita hvar kjóllinn frægi væri í dag.

„Ég er búin að vera með hann inni í skáp hjá ömmu minni í tuttugu ár. Svo vorum við í myndatöku um daginn, allar stelpurnar og ég var alveg okey nú splæsi ég í kjólinn og ætlaði þvílíkt að koma með einhverja neglu. En ég veit ekki hvar hann er,“ segir Manúela sem viðurkennir að hún þurfi að ráðast í dauðaleit á heimili sínu eftir að Eva skýtur því að hvort amma hennar sé ekki bara búin að sauma gardínur úr honum.

Manúela var valin ungrú Ísland árið 2002.
Manúela var valin ungrú Ísland árið 2002. Morgunblaðið/MOTIV, Jón Svavarss.

Keppnin Miss Universe Iceland var fyrst haldin árið 2016 og verður hún því haldin í fimmta skiptið í ár.

„Hún verður 23. október. Hún átti að vera í maí, svo ágúst en hún verður örugglega 23. október,“ segir Manúela og hlær.

Keppnin eitt það skemmtilegasta sem Manúela gerir

Siggi spyr Manúelu hvernig það sé að halda slíka keppni og eru Manúela og Eva báðar sammála því að þetta sé eitt af því skemmtilegasta sem þær geri en Eva hefur séð um að vera kynnir á keppninni.

Þegar Siggi spyr Manúelu hvernig það sé að hafa skotist upp á stjörnuhimininn eftir sigurinn árið 2002 og hvort hún verði aldrei þreytt á öllu sviðsljósinu segist Manúela lítið kippa sér upp við það.

„Ég var bara átján ára þegar ég vann keppnina og þetta hefur fylgt mér síðan þá. Það er nú kannski svolítið dapurlegt að segja það en ég er alveg orðin ótrúlega vön því og ég kippi mér lítið upp við það. Ég veit alveg að ég kem oft fólki sem kynnist mér og þekkir mig á óvart. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk er oft tilbúið til þess að dæma fyrir fram. En þannig er það bara og ég er löngu hætt að spá í þessu. Auðvitað er aldrei gaman þegar það er eitthvað neikvætt en mér finnst bara allt andrúmsloftið í samfélaginu búið að breytast og það er ekki þessi neikvæðni sem var.“

Eva sem hefur þekkt Manúelu alla ævi segir hana þá vera eina af þeim ljúfari manneskjum sem hún þekki. „ Ég segi það bara blákalt hérna í útvarpinu að ég hef aldrei heyrt hana, meira að segja þó við séum kannski bara tvær með kaffibolla, hún talar ekki illa um fólk. Hún er ein af þeim fáu.“

Mætt á nammibarinn klukkan átta á morgnana

Manúela viðurkennir að sér finnist drepleiðinlegt að borða og að ef hún gæti tekið pillu sem gæfi henni allt sem hún þyrfti og hún þyrfti þá ekki að spá í mat þá myndi hún gera það.

„En ég borða ógeðslega mikið nammi. Ég borða nammi allan daginn alltaf. Ég skammast mín stundum því ég er bara mætt á nammibarinn klukkan átta á morgnanna í Hagkaup,“ segir hún.

Aðspurð hvort hún hafi einhvern tíma verið handtekinn svarar Manúela því neitandi.

Ohh, það hefði verið geðveikt ef þú hefðir verið handtekin fyrir að stela nammi á nammibarnum,“ segir Eva.

„Ég hef reyndar gert það, eða þú veist stungið nammi upp í mig. Ég her bara aldri verið böstuð,“ segir Manúela og þau hlæja öll.

Ætlaði að verða fornleifafræðingur

Þá veltir Siggi því fyrir sér hvað Manúela hafi ætlað sér að verða þegar hún yrði stór.

„Ég ætlaði alltaf að vera fornleifafræðingur. Ég átti heima í Vesturbænum og hékk öllum stundum á þjóðminjasafninu og var illa spennt yfir því að finna gamalt drasl einhvers staðar í einhverri moldarhrúgu. Ég varð mjög vonsvikin þegar ég uppgötvaði það að ég þyrfti að gefa allt frá mér og gæti ekki átt það þannig að ég hætti við,“ segir Manúela.

Manúela viðurkennir að hennar sakbitna sæla sé tónlistarmaðurinn Justin Bieber og að hún skammist sín ekkert fyrir það.

Ekki í fínu formi

Spurð út í íþróttaferil sinn skellir Manúela upp úr.

„Nei, nei, nei, nei íþróttir, bara gleymdu hugmyndinni. Ég hef ekki stigið fæti inn í rækt síðan árið 2002. Ég get ekki hlaupið í fimm mínútur.“

„En þú ert í fínu formi?“ Spyr Siggi þá.

„Nei það er nefnilega stór misskilningur. Þetta er mjög algengur misskilningur ég er ekki í neinu formi eiginlega,“ viðurkennir hún.

Fór hamförum á Tinder 

„En hvað finnst þér skemmtilegast í öllum heiminum að gera?“ Spyr Eva.

„Ekki dónalegt?“ Spyr Manúela og skellir upp úr. „Það er það fyrsta sem poppar upp í hausinn á mér. Mér finnst ótrúlega gaman í vinnunni minni, geggjað gaman að ferðast, finnst ótrúlega gaman að fara í bíó. Ég er ekki svona hobbý manneskja, ég er ekki í gólfinu,“ segir hún og þau skella upp úr.

„En hvað finnst þér leiðinlegast að gera?“ Spyr Siggi.

„Að horfa á sjónvarpið. Ég hata að horfa á sjónvarpið. Ég get horft á sjónvarpið með kærastanum mínum en ég get aldrei horft á það ein,“ segir Manúela.

„Hefur þú verið á Tinder?“ Spyr Eva þá.

Mhm... heldur betur. Ég fór hamförum á Tinder og hitti kærastann minn og ég er ógeðslega skotin í honum,“ segir hún.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Manúelu í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is