Listin að lifa og láta sér líða vel

„Í gær var ég ekki upp á mitt besta og …
„Í gær var ég ekki upp á mitt besta og lítil í mér svo að ég ákvað að skrifa niður lista af hlutum sem veittu mér hlýju og gleði.“

Dj Dóra Júlía skrifar um listina að láta sér líða vel

Nú eru flestir áreiðanlega búnir að kveðja sumarið og hjá mörgum tekur við hversdagslegra líf með haustinu. Það er mikilvægt að brjóta upp daglegt líf með því að staldra við og kanna hvernig manni líður. Hvað veitir manni gleði? Þessi spurning virðist kannski einföld en flækist þó oft fyrir okkur.

Nú er ég nýbyrjuð í skóla aftur eftir fjögurra ára fjarveru og lífið er jú að mörgu leyti hversdagslegra en undanfarin ár. Það er samt svo gaman að finna fyrir því innra með sér hvað maður átti það til að sækja langt yfir skammt og hvað hamingjan fyrir mér er háð því hvernig ég kem fram við sjálfa mig og aðra.

Hamingjan er ekki endilega háð því hversu mikið er að gerast þá stundina. Það að vera á ferð og flugi um allan heim með allt í botni er ekki endilega lykillinn. Ég held að þetta ár hafi kennt okkur það og svo margt fleira.

Í gær var ég ekki upp á mitt besta og lítil í mér svo ég ákvað að skrifa niður lista af hlutum sem veittu mér hlýju og gleði. Ég gríp gjarnan í skrifin og finn hvernig það léttir lund mína í hvert einasta skipti. Það að einfaldlega fara í göngutúr og sund breytti deginum algjörlega til hins betra.

Eftir það skellti ég mér á listasafn og gleymdi mér stundarkorn í annarri vídd þar sem listaverkin tóku yfir það sem beið fyrir utan safnið. Ég fór endurnærð út í daginn, umvafin þeirri list sem tilveran er í raun og veru.

Leyfum okkur að gleyma okkur stöku sinnum, látum hugann reika og sköpum okkar eigin lífsins listaverk.

mbl.is