Efla íslensku barna af erlendum uppruna

Mikil gleði ríkir hjá tungumálatöfrum.
Mikil gleði ríkir hjá tungumálatöfrum. Ljósmynd af Facebook/Tungumálatöfrar

Ég fékk senda inn ábendingu af ljósum punkti í tilverunni sem mér fannst alveg ótrúlega skemmtileg. Það var um áhugavert námskeið sem haldið var á Ísafirði fyrr í mánuðinum og heitir Tungumálatöfrar. Ég spjallaði aðeins við Alexöndru Ýr van Erven sem starfaði á námskeiðinu í sumar og hún sagði mér frá þessu frábæra verkefni.

Örva málnotkun í gegnum listir og leiki

Tungumálatöfrar snúast um íslenskunám fyrir börn af erlendum uppruna. Þau notast við mjög fallegt kennslumódel sem að sögn Alexöndru snýst um að örva málnotkunina hjá börnunum í gegnum listir og leiki og veita þeim sjálfstraust til þess að nota málið og vera óhrædd við það. Markmiðið hjá þeim er að gefa þau skilaboð til barnanna að það sé í himnalagi að tala eins og þau tala, með hreim, á sinn einstaka hátt og svo framvegis.

Hugmyndin spratt upp fyrir nokkrum árum hjá konu að nafni Anna Hildur Hildibrandsdóttir, sem er formaður Tungumálatöfra. Hún á tvö barnabörn sem alin eru upp í Bretlandi og alltaf á sumrin fara þau með ömmu sinni til Ísafjarðar, sem er heimabær hennar. Anna Hildur fann fyrir því að það vantaði ákveðið umhverfi fyrir börn sem búsett eru erlendis sem gæti stuðlað að málörvun þeirra og styrkt þau til þess að nota íslenskuna.

Fljótlega eftir að hugmyndin kviknaði þróaðist hún yfir í það að námskeið Tungumálatöfra ættu jafn mikið erindi við börn innflytjenda og flóttamanna. Þannig leiðir námskeiðið þessa hópa saman og í gegnum listir og leiki eflast börnin í íslenskunni. Algjörlega frábært og mikilvægt framtak sem ég vona að fái að blómstra á komandi árum.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist