Hafa hjálpað mörgum að taka af skarið

Edda Þórunn Þórarinsdóttir læknanemi í Slóvakíu sem stofnaði instagramsíðuna Íslenskir …
Edda Þórunn Þórarinsdóttir læknanemi í Slóvakíu sem stofnaði instagramsíðuna Íslenskir læknanemar segir hvetjandi að geta sýnt fólki sem hefur áhuga hversu margir möguleikar séu í boði í læknanámi og hversu víða um heim er hægt að stunda námið. Skjáskot af Instagram @islenskirlaeknanemar

Ég rakst á skemmtilega instagramsíðu á dögunum sem nefnist Íslenskir læknanemar. Þar má finna fjöldann allan af íslenskum læknanemum sem stunda nám um allan heim. Fylgjendum gefst tækifæri á að skyggnast inn í nám þeirra, fjölbreytileika hvers og eins og daglegt líf. Einnig koma fram sérfræðilæknar sem kynna sitt sérsvið. Hingað til hafa 64 einstaklingar tekið yfir instagrammið og sýnt frá degi sínum.

Edda Þórunn Þórarinsdóttir er læknanemi í Slóvakíu og stofnaði aðganginn fyrir rúmu ári síðan. Ég spjallaði aðeins við hana í gegnum instagram og hún sagði mér frá því hvernig hugmyndin þróaðist. Henni fannst vanta vettvang sem gæti kynnt læknisfræðina betur og sýnt frá mismunandi sviðum sem hún býður upp á. Hún vissi enn fremur af mörgum heima á Íslandi sem voru í miklu basli við að komast inn í læknisfræðina og fór það að hafa áhrif á sjálfsálitið að komast ekki inn.

Viðtökurnar „mikil snilld“

Henni þótti hvetjandi að sýna fólki sem hafði áhugann hversu margir möguleikar væru í boði og að hægt sé að stunda námið víða um heiminn. Þannig var upprunalega hugmynd hennar sem þróaðist svo einnig yfir í að kynna þau ólíku sérsvið sem læknisfræðin hefur upp á að bjóða þannig að þeir sem fylgjast með geti mögulega fundið hvar sitt áhugasvið liggur.

Aðspurð segir hún að viðtökurnar hafi verið „mikil snilld“. Það sé magnað að sjá hversu margir eru að fylgjast með og fylgjendahópurinn verður stærri á hverjum degi. Nú eru 3250 að fylgja instagramsíðu Íslenskra læknanema og í hverri viku kemur nýr einstaklingur inn til þess að kynna námið sitt eða þá sitt sérsvið sem læknir. Þau hafa fengið inn frábæra sérfræðilækna sem hafa gert þetta virkilega skemmtilegt. Jafnframt hefur Edda fengið skilaboð frá Íslendingum sem hafa ákveðið að hefja læknisfræðinám erlendis og voru hræddir við það í fyrstu, en þessi aðgangur hafi hjálpað þeim að taka af skarið.

Frábært og áhugavert framtak sem gaman er að fylgja og sjá hvaða fjölbreyttu leiðir þetta göfuga starf hefur upp á að bjóða!

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist