10 ára míní-Monet slær í gegn

Daisy Watt er aðeins 10 ára gömul en hefur vakið …
Daisy Watt er aðeins 10 ára gömul en hefur vakið heimsathygli fyrir málverk sín sem hún selur til að styrkja góðgerðarfélög og heilbrigðisstarfsfólk sem starfar undir miklu álagi vegna kórónuveirufaraldurs Skjáskot úr myndskeiði

Hinni 10 ára gömlu Daisy Watt frá Bretlandi er margt til lista lagt. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir falleg og einstök málverk sín. Daisy, sem er gjarnan kölluð míní-Monet eftir hinum fræga impressjónista og listmálara Claude Monet, hefur notið mikillar velgengni og selt mörg verk. Hins vegar hefur hún ekki þegið peninginn sjálf heldur gefið allt til góðgerðarsamtaka.

Daisy var einungis sex ára þegar hæfileikar hennar fóru að gera vart við sig og var það móðir hennar sem tók fyrst eftir þeim. Amma og afi Daisyar greindust bæði með krabbamein á þeim tíma og ákvað hún að mála myndir handa þeim í von um að láta þeim líða aðeins betur. Árið 2017 málaði Daisy síðan mynd til þess að selja á uppboði í galleríi í nágrenninu. Myndin átti að vera táknræn fyrir baráttu við krabbamein, með dökkum og ljósum blómum. Seldist hún á rétt undir 13.000 pund, eða um 2,3 milljónir íslenskra króna. Allur peningurinn rann beint til krabbameinsrannsókna og góðgerðarfélagsins Firefly. Myndin varð svo vinsæl að hún seldi 100 prentuð eintök af henni til bæði Kanada og Hong Kong. Síðan þá hefur Daisy selt heilmikið af málverkum og gefið hverja einustu krónu til góðgerðarfélaga.

Eftir að Covid-19 hófst hefur hún fundið leiðir til þess að leggja sitt af mörkum með málverkunum sínum. Hún málaði regnboga úr baldursbrám til heiðurs heilbrigðisstarfsfólki og hefur safnað styrkjum til þess með því að selja segla og kort með sömu myndskreytingu.

Foreldrar hennar segja að henni finnist athyglin stundum örlítið óþægileg en þau gætu ekki verið stoltari af henni. Hún leggur sitt af mörkum til þess að hjálpa öðrum með hæfileikum sínum. Virkilega flott og frambærileg ung stúlka sem á framtíðina svo sannarlega fyrir sér.

Frétt Inspire more og The Daily Mail.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist