Þurfa að skipuleggja tímann sinn betur

Gunna Stella heilsumarkþjálfi.
Gunna Stella heilsumarkþjálfi.

Gunna Stella heilsumarkþjálfari heyrði í Ísland vaknar í morgun og ræddi þar um leiðir sem fjölskyldur geta farið til að einfalda líf sitt nú þegar hausta tekur, skólarnir byrja og rútínan tekur aftur við eftir sumarfrí. 

„Flestir foreldrar kannast við það að þú færð kannski ekkert að vita. Þú færð stundaskránna þegar barnaskólinn byrjar en þú færð ekki að vita æfingatímana hjá börnunum þínum fyrr en í byrjun september,“ sagði Gunna Stella sem bendir á að líkur væru á því kórónuveirufaraldur gæti einnig haft áhrif á skipulagið. Sagðist hún vera farin að huga að því hvernig hún og eiginmaður hennar gerðu hlutina í samkomubanninu í vor en að hún vilji gæta að því að reyna að einfalda hlutina. 

Spurning um að fólk plani

„Að við dettum ekki inn í hraða og vitleysu. Það er það að til dæmis vera búin að plana kvöldmat,“ sagði hún. „Hvenær ætla ég að æfa. Hvenær ætla ég að vakna á morgnanna og hvenær ætla ég að eiga tíma fyrir mig. Hvenær ætlar hann að eiga tíma fyrir sig. Þetta er allt sem ég er að huga að af því að við þurfum að vera batterí til að geta sinnt öllu hinu.“

„Við erum stór fjölskylda þannig að ef við getum þetta þá geta aðrir það líka. Ég veit það. En þetta er bara spurning um að fólk plani,“ sagði Gunna Stella og bætti við að það einfaldaði oft líf fólks að kaupa stundum tilbúinn mat sem hægt væri að henda í ofninn, mat frá fyrirtækjum  sem skipuleggja matseldina fyrir mann eins Eldum rétt eða að elda stærri matarskammta sem hægt er að borða aftur síðar.

Auðveldari dagar og vikur

„En þetta kemur allt niður á því að þú verður að ákveða hvað þú ætlar að gera við tímann þinn. Fólki finnst þetta oft rosalegt,“ sagði hún. „Þú þarft samt að ákveða hvað þú ætlar að gera við tímann þinn,“ bætti Gunna stella við en hún hvetur fólk til að fara í gegnum tímastjórnunarbók sem hægt er að fá endurgjaldslaust inn á vefsíðu hennar, gunnastella.is. 

„Þetta er bara þannig að þú skoðar hvern einasta dag. Hvað er ég að setja tímann minn í og hvað langar mig að geta gert. Hvernig get ég komið því fyrir og hvað þarf ég að leggja til hliðar til að geta gert það. Flestir hafa þörf til að geta sinnt fjölskyldu sinni, áhugamálum sínum, vinnunni og að upplifa einhvers konar gleði og hleðslu á hverjum degi. Þá verða dagarnir  og vikurnar auðveldari. Þú lítur til baka og hugsar ekki bara hvað gerði ég við tímann minn heldur: Vá! Þetta var góð nýting á tímanum mínum.“

Hlustaðu á allt viðtalið við Gunnu Stellu í spilaranum hér að neðan. 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir