Sá fram á sölu á líkamshlutum til að fá íbúð í Reykjavík

Þórir, sem á tvö börn undir tveggja ára aldri með …
Þórir, sem á tvö börn undir tveggja ára aldri með unnustu sinni, nýtur þess að búa á Bakkafirði þar sem hann rekur nú fiskvinnslu, stærsta fyrirtækið í þorpinu. Ljósmyndir/Aðsendar

„Það var margt að spila inn í. Fyrst og fremst vorum við að leita okkur að íbúð í Reykjavík. Maður var farinn að sjá fram á að þurfa að selja líkamsparta til að geta fundið sér íbúð,“ sagði Þórir Örn Jónsson, 27 ára, tveggja barna faðir, sem ákvað að flytja ásamt fjölskyldu sinni á Bakkafjörð þar sem þau njóta nú sveitalífsins. Þar býr hann nú ásamt unnustu sinni Sædísi Ágústdóttur, hinum rúmlega eins árs gamla Alexander Amoni og Gabríel Aran sem er aðeins rúmlega mánaðargamall. Þórir ræddi við Síðdegisþáttinn um lífið í þorpinu. 

Bakkafjörður er fallegt en friðsælt þorp en Þórir segir að …
Bakkafjörður er fallegt en friðsælt þorp en Þórir segir að það að búa í bænum sé eins og að fara 30 ár aftur í tímann. Kristinn Benediktsson

Ég byrjaði hérna sem sjómaður og datt síðan inn á fínt „djobb“ og við vorum að opna nýjar fiskvinnslur hérna niðri við bryggjuna og erum nú með stærsta fyrirtækið á Bakkafirði,“ sagði Þórir sem kvaðst ekki hafa búist við því að vilja setjast að í þorpinu. 

„Við vorum svona að hugsa okkur að búa hérna kannski í ár og safna okkur smá pening og fara síðan aftur í  bæinn en þetta er bara agalega ljúft,“ sagði hann og bætti við að þetta væri eins og að fara 30 ár aftur í tímann. 

Þórir sagði að síðasti vetur hefði verið einstaklega harður. „Það var náttúrulega appelsínugul viðvörun og rauð viðvörun til skiptis í allan vetur. Rafmagnið fór mikið út hjá okkur og við lokuðumst mikið inni, þannig að maður þurfti alltaf að hugsa svona tvær til þrjár vikur fram í tímann. Þú ert með ísskápinn fullan og frystikistuna fulla og kyndir húsið vel á kvöldin því ef það sló út um nóttina þá vissir þú ekkert hvenær það myndi koma aftur. Við lentum tvisvar í því að vakna í ísköldu húsi. Maður þarf svona aðeins að hugsa öðruvísi,“ sagði Þórir „En þetta er samt frábært. Það er ekki til stress hérna og ef þú ert útivistarmanneskja þá er nóg að gera og þetta er voða ljúft. Gamli sjávarþorpsfílingurinn,“ bætti hann við.

Þórir lætur sér ekki leiðast á Bakkafirði.
Þórir lætur sér ekki leiðast á Bakkafirði.

Bakkafjörður er rúmlega 50 manna þorp sem stendur við samnefndan fjörð á Norðausturlandi en Þórir staðfestir að það taki um hálftíma að fara á Vopnafjörð frá bænum og 45 mínútur í Þórshöfn þar sem séu ágætisverslanir. Fjölskyldan keyri þó um það bil einu sinni til tvisvar í mánuði til Egilsstaða þar sem þau geri stórinnkaupin. Að öðru leyti sagði Þórir að bíllinn sitji nánast óhreyfður. 

Fjölgað hefur í fjölskyldu Þóris, Sædísar og Amons síðan um …
Fjölgað hefur í fjölskyldu Þóris, Sædísar og Amons síðan um síðustu jól en nú hefur annar sonur bæst í hópinn en Gabríel Aran fæddist 7. júlí.

„Þetta er náttúrulega náttúruperla“

„Okkur langar endilega að efla ferðamannalífið þarna. Þetta er náttúrulega náttúruperla. Ef við náum að gera það og búa til samfélag og líf hérna þá er ég ekkert að fara að drífa mig í burtu á næstunni,“ sagði Þórir sem benti á að talsverð „traffík“ hafi verið í þorpinu í sumar bæði á tjaldsvæðinu og á gistiheimilinu. 

Fjölbreytt dýralíf er í nágrenni við Bakkafjörð.
Fjölbreytt dýralíf er í nágrenni við Bakkafjörð.

Aðspurður sagði Þórir að honum væri síður en svo farið að leiðast á Bakkafirði enda væri mikið að gera. „Við erum svo agalega virk. Ef það er vont veður þá erum við inni að spila og drekka bjór og ef það er gott veður þá erum við í sjónum eða að „sörfa“. Allir eru með „krossara“ hérna og reiðhjól og við látum okkur ekki leiðast,“ sagði Þórir.

Þórir sótti um styrk í byrjun árs fyrir markaðsátak fyrir Bakkafjörð og útbjó kynningarmyndband um staðinn ásamt vini sínum sem sjá má hér að neðan.

Ég sótti um styrk í byrjun árs fyrir markaðs átak fyrir Bakkafjörð og var því samþykkt og bjuggum við til þetta frábæra myndband með félaga mínum og snillingi jonfromiceland. Megið endilega deila :)

Posted by Þórir Örn Jónsson on Fimmtudagur, 13. ágúst 2020

 Allt viðtalið við Þóri má heyra í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist