Varð „óléttur“ á leið í meðferð að einu þekktasta lagi sínu

„Ég er kampa­kát­ur að hafa staðið með sjálf­um mér og …
„Ég er kampa­kát­ur að hafa staðið með sjálf­um mér og hótað að fara ef ég fengi ekki gít­ar,“ sagði Bubbi um tilurð lagsins Rómeo og Júlíu. „Ég segi í dag að SÁÁ eigi nú eitthvað í þessu lagi.“ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lagið Rómeó og Júlía er eitt þekktasta lag Bubba Morthens. Flestir Íslendingar þekkja lagið og geta raulað með því en fáir þekkja söguna um tilurð þess. Bubbi ræddi um aðdragandann að því að þetta landsþekkta lag varð að veruleika í Síðdegisþættinum á K100 en litlu mátti muna að Bubbi hefði ekki fengið gítar í tæka tíð til að „fæða“ lagið sem hann kveðst hafa orðið óléttur að fyrir 35 árum á leið í meðferð.

„Ég er að fara í rútu ásamt hópi af fólki sem var að fara í eftirmeðferð að Staðarfelli í Dölum. Það er myrkur. Það er febrúar. Þetta er þegar rútur eru enn þá frekar nöturleg farartæki,“ sagði Bubbi Morthens í samtali við Síðdegisþáttinn í vikunni þar sem hann ræddi um tilurð eins af hans þekktustu lögum, lagsins Rómeó og Júlía. Kvaðst hann hafa verið afar feiminn í rútuferðinni enda orðinn þjóðþekktur á þessum tíma, snemma árs 1985, og hafi því ákveðið að setjast aftast í rútuna.

Var að verða óléttur að tónlist

Sagði hann að þegar komið var við í Búðardal hafi hann fundið að það var eitthvað að gerast innra með honum þar sem hann fylgdist með myrkrinu og snjónum.

„Ég er að verða óléttur að músík og það er búið að vera dálítið í hausnum á mér,“ sagði Bubbi. Sagðist hann hafa hugsað mikið til vinar síns, sem var sprautufíkill á þessum tíma og til kærustu hans sem Bubbi umgekkst mikið á sama tíma.

„Ég er farinn að fá einhvers konar tilfinningu. Að það gæti mögulega verið lag að koma. Þetta poppar upp inni í mér, einhver orð og einhverjar hugmyndir og svo er ég í kvíðakasti yfir því að vera að fara í meðferð,“ sagði hann. Kvaðst hann muna vel eftir að hafa komið að meðferðarheimilinu í svartabyl þar sem „björt“ kona hafi tekið á móti fólkinu í rútunni.

„Svo er ég búinn að vera þarna í viku og þá er ég orðinn þannig að ég bara veit að ég verð að fá gítar og verð að fá að semja,“ sagði Bubbi sem kvaðst hafa rekið augun í gítar hjá starfsfólki meðferðarheimilisins og farið í kjölfarið til eins meðferðarfulltrúans að nafni Sigurður og beðið hann um aðgang að gítar þar sem hann þyrfti að fá að semja lag.

„Hann segir bara: Heyrðu Bubbi minn. Hvað er að þér? Þú ert hérna í meðferð og þú ert ekki hérna til að semja lög. Svo segir hann dálítið þungur: Það eru tveir hlutir sem eru algjörlega á hreinu, Bubbi minn. Þú ert ekki að fara að sukka í kvenfólki og þú ert ekki að fara að spila á gítar!“

Myndband við lagið Rómeo og Júlíu var fyrsta tóndæmið í …
Myndband við lagið Rómeo og Júlíu var fyrsta tóndæmið í söngleik Borgarleikhússins 9 líf sem fjallar um ævi Bubba. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hótaði að fara fengi hann ekki gítar

Bubbi segir að við þetta hafi fokið verulega í hann og hann þá hótað Sigurði að hann ætlaði þá að yfirgefa staðinn: „Ég er bara farinn. Ég fer bara á puttanum í bæinn.“

Þá sagði Bubbi að Sigurður hefði komið til hans og boðið honum að fá gítar að láni en einungis í tvo daga. „Og ef þú nærð að semja eitthvað þá verður þú að spila þetta fyrir okkur á kvöldvökunni næsta miðvikudag.

Svo fæ ég gítarinn og þegar ég er að labba með gítarinn, algjörlega kampakátur, alveg geggjað, þá heyri ég lag í útvarpinu. Það er á dönsku og lagið er um Rómeó og Júlíu. Bara orðin: Rómeó og Júlía. Þarna var kominn kyndillinn á lagið,“ sagði Bubbi. Sagði hann að strax og hann hafði tekið upp blað og penna inni í herberginu sem hann dvaldi í á meðferðarheimilinu hefðu orðin byrjað að streyma fram og lagið farið að mótast.

„Þetta byrjaði bara: Uppi í risinu sérðu lítið ljós. Heit hjörtu. Fölnuð rós,“ rifjaði Bubbi upp en hann kvaðst hafa klárað lagið sama dag en einnig samdi hann lagið Systir minna auðmýktu bræðra á þessum tveimur dögum sem hann fékk að hafa gítarinn. Hann stóð svo við loforð sitt og frumflutti Rómeó og Júlíu á kvöldvöku á meðferðarheimilinu.

„Gítarinn var svo bara settur á sinn stað. Ég kláraði meðferðina sem dugði nú ekki alveg. Ekki í þessari tilraun,“ sagði Bubbi.

„Ég er kampakátur að hafa staðið með sjálfum mér og hótað að fara ef ég fengi ekki gítar,“ sagði hann. „Ég segi í dag að SÁÁ eigi nú eitthvað í þessu lagi.“

Hlusta má á viðtalið við Bubba í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist