Reyndi að gulltryggja sig en situr nú auðum höndum

Afkomukvíði fékk Árna Grétar til að bæta við sig alls …
Afkomukvíði fékk Árna Grétar til að bæta við sig alls konar hæfni sem hann vonaði að myndi gulltryggja að hann væri alltaf öruggur með vinnu. Öll hans hæfni er þó lítið nothæf í kórónuveirufaraldri og því situr hann nú auðum höndum. Samsett ljósmynd: mbl.is/ Eggert Jóhannesson, úr safni

Árni Grétar Jóhannsson er sérhæfður í mörgu en hann ákvað eftir að hafa klárað BA-gráðu í leikstjórn að bæta við sig ýmiss konar hæfni til að tryggja að hann væri alltaf öruggur með vinnu. Hann situr þrátt fyrir það auðum höndum í kórónuveirufaraldri sem hefur bein áhrif á öll hans störf en hann ræddi um þetta í Síðdegisþættinum á mánudag.

Árni segir afkomukvíða sinn hafa fengið hann til að dreifa öllum sínum eggjum í nokkrar körfur en hann stærir sig nú, auk BA-prófsins, af leiðsögumannsprófi, litla rútuprófinu, hefur leyfi til að gifta á vegum siðmenntar, vinna í brúðkaupum og öðrum viðburðum og er eigandi að skemmtistaðnum KIKI Queer Bar í miðbænum. Öll þessi hæfni og menntun hefur hins vegar lítið upp á sig á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru og er Árni því nánast alfarið atvinnu- og verkefnalaus.

 „Allt út af borðinu“

„Maður verður nú svo sem að halda í jákvæðnina og vonina að okkur takist að kveða þessa veiru niður en þetta er engu að síður skrítin staða að vera í. Sérstaklega að ég er með pínu afkomukvíða og þess háttar og ákvað því bara að gulltryggja. Eins og ég segi, að fara í leiðsögunámið, [taka] litla rútuprófið  og hitt og þetta. Fara að gifta fyrir Siðmennt og vinna við brúðkaup og viðburði og eignast skemmtistað,“ sagði Árni og bætti við: „Og nú stendur þetta allt út af borðinu.“

Sagði Árni að haustið og veturinn hafi litið ágætlega út þar til seinni bylgja faraldursins skall á. „Ég er eiginlega að vona að við getum farið að ná þessu niður og ég geti farið að standa á bak við barinn aftur eins og maður er farinn að gera,“ sagði hann en skemmtistaðnum KIKI var lokað í annað sinn fyrir um tveimur vikum vegna hertra aðgerða stjórnvalda vegna COVID-19.

„Við með þannig stað, KIKI, sem er náttúrulega þekktur fyrir dans og mikla gleði. Mikið djamm og stuð og þess háttar. Og í litlu húsi í miðbænum þar sem er bara ekki „séns“ að við getum leyft gleðinni að flæða og passað upp á tvo metrana,“ sagði Árni.

Árni tilkynnti um lokun KIKI á Facebook-síðu sinni þar sem hann tjáði sig fyrst um aðstæður sínar en færsluna má sjá hér. 

Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að BA gráðan mín í leikstjórn myndi ekki veita mikið starfsöryggi enda fastráðnir...

Posted by Árni Grétar Jóhannsson on Fimmtudagur, 30. júlí 2020

Hlustaðu á allt viðtalið við Árna í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is